Ingunn Arnórsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ingunn Arnórsdóttir var íslensk menntakona og kennari á 12. öld. Hún var skagfirsk, af ætt Ásbirninga, dóttir Arnórs Ásbjarnarsonar og systir Kolbeins Arnórssonar, föður þeirra Arnórs og Tuma Kolbeinssona. Hún var á Hólum hjá Jóni biskupi Ögmundssyni og er fyrsta íslenska konan sem sögur fara af sem var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns við pilta og kenndi þeim líka. Ekki er vitað hvort Ingunn fékk kennslu með skólasveinum eða hvort henni tókst einfaldlega að nema það sem verið var að kenna þeim um leið og hún sinnti handavinnu sinni og öðrum verkum. Frá henni segir í sögu Jóns biskups, þegar taldir hafa verið upp nokkrir vel menntaðir skólapiltar, þar á meðal tveir sem síðar urðu biskupar:

„Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna."

Ingunn Arnórsdóttir var líka einn heimildarmanna Odds Snorrasonar munks á Þingeyrum þegar hann skrifaði Ólafs sögu Tryggvasonar.

Ingunnarskóli í Grafarholti í Reykjavík er kenndur við Ingunni og árið 2017 ákvað borgarráð Reykjavíkur að gata á svæði Vísindagarða í Vatnsmýrinni í Reykjavík yrði nefnd Ingunnargata eftir Ingunni Arnórsdóttur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Um Hólaskóla hinn forna. Greinasafn mbl.is“.
  • Nafni Hallsvegar ekki breytt í Fjölnisbraut.“ Ruv.is, 10. febrúar 2017 (skoðað 22. júní 2019)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]