Fara í innihald

Scotice

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Icecan)

Scotice og Icecan voru sæsímastrengir milli Kanada, Íslands, Færeyja og Skotlands. Þeir náðu samanlagt frá Corner Brook á Nýfundnalandi til Stórhöfða í Vestmannaeyjum til Velbastaðar á Straumey til Gairloch á norðvesturströnd Skotlands, alls 4200km leið. Strengirnir voru lagðir að frumkvæði Stóra norræna ritsímafélagsins en þátttakendur voru ríkisstjórnir Danmerkur, Bretlands og Kanada auk Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Með lagningu strengjanna fékk Stóra norræna ritsímafélagið einkarétt á símasambandi við Ísland. Scotice, frá Íslandi til Færeyja og Skotlands, var tekinn í notkun 22. janúar 1962 en Icecan, frá Kanada til Íslands, 31. desember sama ár eftir nokkur vandræði með bilanir. Scotice var með 24 talsímarásir og Icecan með 20 og gerðu þessir strengir Íslendingum og Færeyingum í fyrsta sinn kleift að hringja og senda fax til útlanda. Þetta var helsta samskiptaleið Íslands við útlönd þar til Skyggnir var tekinn í notkun og símtöl fóru um gervihnött árið 1980. Strengirnir voru áfram notaðir sem varatenging til 1987.