Hugo Chávez
Hugo Chávez | |
---|---|
Forseti Venesúela | |
Í embætti 2. febrúar 1999 – 5. mars 2013 | |
Varaforseti | |
Forveri | Rafael Caldera |
Eftirmaður | Nicolás Maduro |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 28. júlí 1954 Sabaneta, Venesúela |
Látinn | 5. mars 2013 (58 ára) Caracas, Venesúela |
Þjóðerni | Venesúelskur |
Stjórnmálaflokkur | Sameinaði sósíalistaflokkur Venesúela |
Maki | Nancy Colmenares (g. 1977; sk. 1995) Marisabel Rodríguez (g. 1997; sk. 2004) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | Rosa Virginia, María Gabriela, Hugo Rafael, Rosinés |
Undirskrift |
Hugo Rafael Chávez Frías (28. júlí 1954 – 5. mars 2013), þekktastur sem Hugo Chávez, var forseti Venesúela frá 1999 til 2013.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Þann 4. febrúar 1992 fór Hugo Chávez, sem þá var ofursti í her Venesúela,[1] fyrir valdaránstilraun hersins gegn forsetanum Carlos Andrés Pérez.[2] Valdaránstilraunin var gerð í kjölfar efnahags- og stjórnarörðugleika í Venesúela er götumótmæli voru orðin tíð.[1] Uppreisninni lauk þegar Chávez skipaði hersveitum sínum að gefast upp er þær höfðu komið sér fyrir nærri forsetahöllinni Miraflores í Caracas. Ástæðan sem Chávez gaf var sú að hann vildi afstýra „blóðbaði“ en því hefur verið haldið fram að hann hefði getað tekið völdin og drepið forsetann ef hann hefði haldið uppreisninni til streitu.[2] Með sjónvarpsávarpi sínu í kjölfar uppreisnarinnar, þar sem Chávez viðurkenndi mistök sín, varð hann mjög nafntogaður í Venesúela og margir fóru að líta til hans sem „frelsara“ landsins. Chávez var settur í fangelsi eftir uppreisnina en honum var sleppt eftir aðeins tvö ár þegar Rafael Caldera forseti veitti honum sakaruppgjöf. Tilgátur hafa verið settar fram um að Caldera hafi með þessu verið að launa Chávez greiða þar sem valdaránstilraun Chávez hafði átt þátt í því að Péréz forseti hrökklaðist frá völdum og Caldera tók við.[2] Chávez hóf þátttöku í stjórnmálum Venesúela eftir að honum var sleppt.
Chávez bauð sig fram í embætti forseta Venesúela árið 1998. Í aðdraganda forsetakosninganna unnu samtök sem Chávez hafði stofnað, Föðurlandsfylkingin (Polp Patriótieo) þriðjung sæta á landsþingi Venesúela og unnu átta ríkisstjórakosningar af 23.[2] Chávez varð fljótt talsmaður hinna fátæku í Venesúela og lofaði kjósendum því að hann myndi leysa upp þingið ef hann kæmist til valda.[1][2] Chávez vann sigur í kosningunum og varð lýðræðislega kjörinn forseti Venesúela með 55 prósent greiddra atkvæða.[1]
Lýðræðislegt tveggja flokka kerfi hafði verið við lýði í Venesúela frá árinu 1958, þegar helstu stjórnmálahreyfingar landsins gerðu með sér Puntofijo-samkomulagið svokallaða.[1] Þegar komið var fram á tíunda áratuginn hafði þetta kerfi hins vegar breyst í nokkurs konar valdaeinokunarkerfi tveggja nauðalíkra flokka og spilling var víðtæk.[1] Margir litu til Chávez sem frelsara landsins undan tveggja flokka kerfinu og á skömmum tíma eftir kjör sitt til forseta ruddi hann þessu kerfi úr vegi.[1]
Árið 2002 gerði venesúelski herinn tilraun til valdaráns gegn stjórn Chávez og neyddi hann til að segja af sér. Valdaránið var framið í kjölfar þriggja daga allsherjarverkfalls og götuóeirða þar sem ellefu manns létust.[3] Chávez var sendur í hald til Karíbahafseyjarinnar La Orchila og Pedro Carmona, formaður samtaka kaupsýslumanna, var skipaður forseti bráðabirgðastjórnar. Mótmæli almennings og þrýstingur frá Samtökum Ameríkuríkja leiddi hins vegar fljótt til þess að stjórn Carmona lagði upp laupana, Chávez var leystur úr haldi og hann settur í forsetaembættið á ný.[4]
Chávez kallaði stjórnartíð sína „bólivarísku byltinguna“ í höfuðið á átrúnaðargoði sínu, Simón Bolívar. Þessi bylting gekk út á að hafna nýfrjálshyggju og veita kapítalisma aðhald með áhrifum ríkisins.[1] Þær breytingar sem Chávez gerði á stjórnarháttum Venesúela miðuðu að aukinni miðstýringu en gagnrýnendur hans sökuðu hann fyrir vikið um að brjóta niður þrískiptingu valdsins og um einræðistilburði með slæmum afleiðingum fyrir venesúelska efnahaginn.[1] Árið 2009 gerði Chávez breytingar á stjórnarskrá Venesúela til að leyfa sjálfum sér að bjóða sig fram til endurkjörs eins oft og hann lysti.
Undir stjórn Chávez náðist um skeið (aðallega frá 2003–2007) nokkur árangur á sviðum eins og menntun, læsi, tekjujöfnuði og almennum lífsskilyrðum[5][6][7][8][9][10][11][12] en flestum þessum framförum hafði verið snúið við undir lok forsetatíðar hans. Snemma á öðrum áratug 21. aldar var efnahagur Venesúela bágstaddur, morðtíðni hafði hækkað og fátækt hafði aukist, verðbólga var mikil og talsverður matarskortur hrjáði landið. Vandamálin hafa verið rakin til efnahagsstefnu Chávez, þar á meðal til verðstýringar hans[13] og til fjárhagshalla ríkisstjórnarinnar.[14]
Chávez var lengi hrjáður af lungnasýkingu og krabbameini.[15] Þessir sjúkdómar drógu hann til dauða snemma árs 2013, stuttu eftir að Chávez hafði unnið sitt fjórða kjörtímabil sem forseti Venesúela. Við Chávez tók varaforseti hans, Nicolás Maduro.[16]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Stefán Ásgeir Guðmundsson (1. janúar 2009). „Hugo Chávez - hinn sterki maður"“. Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Ásgeir Sverrisson (6. desember 1998). „Pólitískur fellibylur í aðsigi?“. Morgunblaðið. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ „Chavez segir af sér að kröfu hersins“. Morgunblaðið. 13. apríl 2002. Sótt 13. nóvember 2019.
- ↑ „Chavez kveðst ætla að leiðrétta mistök sín“. Morgunblaðið. 16. apríl 2002. Sótt 13. nóvember 2019.
- ↑ James, Ian (4. október 2012). „Venezuela vote puts 'Chavismo' to critical test“. Yahoo. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. september 2014. Sótt 2. febrúar 2013.
- ↑ Social Panorama of Latin America 2014 (PDF). ECLAC. mars 2014. bls. 91–92. Sótt 15. júní 2015.
- ↑ Montilla K., Andrea (23. apríl 2014). „Hoy se inicia consulta nacional para el currículo educativo“. El Nacional. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. apríl 2014. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ „Estrategia de Cooperación de OPS/OMS con Venezuela 2006–2008“ (PDF) (spænska). Pan American Health Organization. júní 2006. bls. p. 54. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. október 2006. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ Márquez, Humberto (28. október 2005). „Venezuela se declara libre de analfabetismo“ (spænska). Inter Press Service. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. september 2014. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ „Propaganda, not policy“. The Economist. 28. febrúar 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. september 2014. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ Weisbrot, Mark; Rosnick, David (maí 2008). „'Illiteracy' Revisited: What Ortega and Rodríguez Read in the Household Survey“ (PDF). Sótt 28. maí 2018.
- ↑ „Banco de la Vivienda transfirió 66 millardos para subsidios“ (spænska). El Universal. 10. nóvember 2006. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ Barreiro C., Raquel (4, mars 2006). „Mercal es 34% más barato“ (spænska). El Universal. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ Siegel, Robert (25. desember 2014). „For Venezuela, Drop In Global Oil Prices Could Be Catastrophic“. NPR. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ Óli Kristján Ármannsson (5. janúar 2013). „Hugo Chavez berst við lungnasýkingu“. Vísir. Sótt 28. maí 2018.
- ↑ „Hugo Chávez látinn“. RÚV. 5. mars 2013. Sótt 25. febrúar 2023.
Fyrirrennari: Rafael Caldera |
|
Eftirmaður: Nicolás Maduro |