Frá vöggu til vöggu
Frá vöggu til vöggu (enska: Cradle-to-cradle design eða C2C) er heildræn hönnunarstefna sem byggist á hugmyndinni um lífhermun og gerir ráð fyrir kerfum þar sem enginn úrgangur verður til. Hugtakið nær ekki aðeins til iðnhönnunar og framleiðslu, heldur tekst líka á við hönnun borga, mannvirkjagerð og samfélagsþróun. Enska hugtakið tengist bandaríska arkitektinum William McDonough sem gaf út bókina Cradle to Cradle: Remaking the Way We Make Things árið 2002. „Cradle to Cradle“ er skrásett vörumerki sem var í eigu McDonough en er nú í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Cradle to Cradle Products Innovation Institute.
Frá vöggu til vöggu gengur aðallega út á að nota skaðlaus lífræn og ólífræn hráefni sem ýmist brotna auðveldlega niður í náttúrunni eða endast lengi og er hægt að endurnýta og eru skaðlaus þegar þeim er hent. Stefnan gengur þannig út á að nota ekki eitur, stökkbreytivalda, þungmálma og önnur efni sem hafa neikvæð langtímaáhrif á heilsu lífrænna og ólífrænna framleiðslukerfa.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Cradle to Cradle Products Innovation Institute“. c2ccertified.org.