Hilmar Þorbjörnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hilmar Þorbjörnsson (23. október 193429. janúar 1999) var íslenskur frjálsíþróttamaður sem var fremsti spretthlaupari landsins á sinni tíð. Hann keppti á tvennum Ólympíuleikum og setti árið 1957 Íslandsmet í 100 metra hlaupi sem enn stendur (2011) og er elsta íslenska frjálsíþróttametið.

Hilmar var fæddur í Reykjavík, sonur Þorbjarnar Þórðarsonar málarameistara og konu hans Charlottu Steinþórsdóttur. Hann lauk gagnfræðaprófi og hóf síðan störf í lögreglunni, þar sem hann starfaði lengst af. Hann var yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar í nokkur ár og starfaði síðast hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann starfaði einnig hjá Sameinuðu þjóðunum í New York á árunum 1963-1964 og í Ísrael 1969-1971. Hann var tvíkvæntur og eignaðist 9 börn.

Hilmar var frækinn spretthlaupari og átti á sínum tíma Íslandsmet í 100 metra hlaupi, 200 metra hlaupi, 300 metra hlaupi og í 4 x 400 metra boðhlaupi og stendur met hans í 100 metra hlaupi, 10,3 sekúndur (með þáverandi tímatökutækni) ennþá og hefur ekki verið slegið þótt það hafi verið jafnað nokkrum sinnum. Metið, sem var sett á meistaramóti Íslands sumarið 1957, var á sínum tíma Norðurlandametsjöfnun.[1]

Hilmar var annar af aðeins tveimur Íslendingum sem kepptu á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, hinn var Vilhjálmur Einarsson. Hilmar keppti í 100 metra hlaupi og varð í þriðja sæti í sínum riðli í undanrásum en tognaði og gat því ekki keppt í 200 metra hlaupi. Hann keppti einnig í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og varð þar í fjórða sæti í sínum riðli og komst ekki áfram. Hann var skráður til leiks í 200 metra hlaupi en gat ekki tekið þátt vegna veikinda.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Hilmar er nú orðinn einn af þremur bestu spretthlaupurum Evrópu. Alþýðublaðið, 21. ágúst 1957.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hilmar Þorbjörnsson. Morgunblaðið, 11. febrúar 1999“.
  • „Hilmar Þorbjörnsson. Morgunblaðið, 13. febrúar 1999“.