Herstöðvagangan 1970
Herstöðvagangan 1970 var mótmælaganga gegn herstöðinni á Miðnesheiði sem fram fór sunnudagskvöldið 10. maí. Dagsetningin vísaði til þess að þá voru þrjátíu ár liðin frá hernámi Íslands í seinni heimsstyrjöldinni og bar merki göngunnar áletrunina Ísland hersetið í 30 ár. Gengið var frá Hvaleyrarholti í Hafnarfirði til Reykjavíkur.
Aðdragandi og skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Herstöðvagangan var haldin í ákveðnu millibilsástandi, þar sem Samtök hernámsandstæðinga höfðu lognast út af eftir að hafa verið leiðandi í baráttunni gegn erlendri hersetu í áratug og enn voru tvö ár í að Samtök herstöðvaadstæðinga væru stofnuð til að taka upp þráðinn.
Gangan fór fram í miðri kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1970 og fengu því ef til vill minni fjölmiðlaumfjöllun en ella hefði verið. Gangan var ekki haldin í nafni neins ákveðins aðila heldur boðuð af 10. maí nefndinni, en einstök samtök skipulögðu stutta fundi á áningarstöðum. Ekki var starfrækt sérstök skrifstofa í tengslum við undirbúninginn líkt og tíðkast hafði fyrir Keflavíkurgöngur fyrri ára. Þótt yfirskrift og dagsetning göngunnar vísaði til hersetunnar á Íslandi voru kröfumál göngufólks einnig alþjóðleg og snerust um heimsvaldastefnu stórveldanna og stríð í fjarlægum löndum.
Dagur Þorleifsson blaðamaður ávarpaði göngufólk í upphafi hennar kl. 19. Því næst var gengið að Víghól í Kópaogi þar sem haldinn var fundur tileinkaður sjálfstæði Íslands og flutti Þorsteinn frá Hamri þar ræðu.
Stúdentafélagið Verðandi skipulagði fund við sendiráð Tékkóslóvakíu um herstöðvar á erlendri grundu, þar sem Jón Sigurðsson ávarpaði göngufólk. Því næst lá leiðin að bandaríska sendiráðinu þar sem Víetnamnefndin annaðist fund með Birnu Þórðardóttur sem ræðumanni.
Það var komið framundir miðnætti þegar gangan nam loks staðar á Arnarhóli. Ragnar Arnalds ávarpaði hópinn og sá um fundarstjórn en auk hans fluttu Geir Gunnlaugsson og Baldur Óskarsson ávörp fyrir hönd ungra Alþýðuflokks- og Framsóknarmanna. Að sögn Þjóðviljans tóku þúsundir þátt í síðasta hluta göngunnar og var ungt fólk þar fyrirferðarmikið.[1]