Helsingjanef

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Helsingjanef
Helsingjanef (Lepas anatifera) fast á plastflösku sem rak á land í Galesíu á Spáni.
helsingjanef á rekavið
Klasar af helsingjanefjum fastir á rekavið

Helsingjanef eru  krabbadýr af ættbálki skelskúfa (Cirripedia). Þau sía fæðu úr sjó og  eru skyld hrúðurkörlum. Skelin er á stilk sem svo er festur við sjávarbotn eða sjávarkletta eða hluti sem reka í sjónum. Sumar tegundir lifa á úthafssvæði og finnast helst á rekavið og öðru því sem rekur upp á strönd. Oftast eru helsingjanef mörg saman og mynda klasa á viðnum. Dýrin sitja á vöðvalegg sem er festur við rekavið eða annað rekald og dýrið myndar eins konar höfuð á leggnum og umhverfis það eru kalkskeljar.

Fyrr á tímum þegar lítil þekking var á ferðum farfugla var haldið að farfuglar eins og helsingi og margæs kæmu úr skel krabbadýrsins helsingjanefs þar sem enginn hafði séð hreiður þessara fugla í Evrópu. Ein tegund helsingjanefs hefur fundist á rekavið sem rekið hefur til Íslands en það er tegundin Lepas anatifera.


Í Íslandslýsingu frá 1638 segir Gísli Oddsson biskup:

„En svo skal ég ekki fara út fyrir efnið og þá kem ég að öðrum líkum fuglum af sama kyni, en lítið eitt minni, sem halda sig mest við sjávarstrendur og eru því nefndir margæsir. Þeim eru líkastir helsingjar, sem menn halda að hafi tvöfalda æxlun, fæðist annað kynið af trjáviði nokkrum (sjá Gyðingasögu Jósephusar), en hitt komi fram við egg. Hefur eftir því verið tekið hér á landi, að hið síðarnefnda hendi sjaldan hér, og fullyrða menn því einum munni, að allir helsingjar vorir séu karlfuglar.“

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]