Haugsnesbardagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Herfylkingarnar táknaðar með steinhnullungum. Her Ásbirninga til vinstri býr sig til að taka á móti Sturlungum úr suðri en þeir birtast skyndilega úr austurátt. Krossarnir á sumum steinanna tákna þá sem féllu í bardaganum.

Haugsnesbardagi (oft einnig nefndur Haugsnesfundur[1])) var mannskæðasti bardagi á Íslandi, háður 19. apríl 1246 og var ein af stórorrustum Sturlungaaldar. Þar börðust Sturlungar (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar við Ásbirninga (Skagfirðinga), sem Brandur Kolbeinsson stýrði. Hann hafði á sjötta hundrað manna í sínu liði en Þórður kakali nærri fimm hundruð og voru það því yfir þúsund manns sem þarna börðust og tíundi hver féll, eða yfir eitt hundrað manns.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar. Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og gátu komið Skagfirðingum að óvörum, svo að þeir voru illa viðbúnir. Þórður kakali hafði líka komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta með sér.

Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga. Hann var höggvinn á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Hansen bóndi í Kringlumýri hefur komið upp minnismerki um Haugsnesbardaga á eyrunum og stillt þar upp í fylkingar yfir eitt þúsund stórum grjóthnullungum, einum fyrir hvern þátttakanda í bardaganum, og merkt suma steinana með krossi til að tákna þá sem féllu.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Grein í Morgunblaðinu 1994
  2. „Haugsnes og Róðugrund. Á www.sturlungaslod.is, skoðað 7. nóvember 2010“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. september 2011. Sótt 7. nóvember 2010.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]