Fara í innihald

Hans Becker

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hans Becker (d. 3. mars 1746) var danskur maður sem varð lögmaður á Íslandi en hafði áður verið skrifari og aðstoðarmaður Árna Magnússonar.

Becker kom með Árna til Íslands, ferðaðist um landið með honum í fjögur ár þegar Árni var við gerð jarðabókarinnar og lærði íslensku nægilega vel til að þýða íslenskar guðsorðabækur á dönsku. Hann varð seinna timburkaupmaður í Danmörku og þegar hús Árna brann í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn 1728 kom Árni þeim hluta bókasafnsins sem bjargaðist í geymslu hjá Becker.

Becker hélt vinskap við Árna og fleiri Íslendinga, hafði áhuga á landinu og skrifaði meðal annars bækling árið 1736, sem ekki var þó prentaður fyrr en löngu síðar, þar sem hann lagði fram ýmsar tillögur sem hann taldi að gætu orðið til framfara. Meðal annars vildi hann fækka kaupstöðum í fimm og efla þá síðan og styrkja þar með þéttbýlismyndun. Hann lagði til að Hafnarfjörður yrði höfuðstaður landsins og aðsetur helstu embættismanna. Einnig vildi hann koma á akuryrkju og trjárækt, múrsteinsgerð og kalkbrennslu.

Árið 1737 sótti Hans Becker um lögmannsembætti norðan lands og vestan og fékk það. Hann kom til landsins um vorið og var á Alþingi, fór svo út um haustið og sótti fjölskyldu sína og kom aftur næsta vor. Hann stóð fyrir því að láta byggja lögréttuhús úr timbri á Þingvöllum en þar hafði ekkert slíkt hús verið.

Þrátt fyrir einlægan Íslandsáhuga varð Becker ekki tilþrifamikill lögmaður, enda farinn að eldast og heilsan ekki góð. Hann fékk aðstoðarmann 1741, Orm Daðason sýslumann, sem var frændi Árna Magnússonar og hafði verið skrifari hjá honum eins og Becker, og gengdi hann lögmannsstarfinu á Alþingi þá um sumarið og einnig næsta sumar þótt þá væri búið að skipa Svein Sölvason varalögmann, en hvorugur þeirra Beckers kom til þings. Árið 1743 gegndu Ormur og Sveinn báðir lögmannsstörfum norðan og vestan á Alþingi en síðan var ákveðið að Sveinn skyldi gegna lögmannsstarfinu í forföllum Beckers. Hann tók líka við þegar Becker dó 1746.

Becker bjó síðustu árin í Brokey og dó þar.


Fyrirrennari:
Magnús Gíslason
Lögmaður norðan og vestan
(17371745)
Eftirmaður:
Sveinn Sölvason