Héraðsskjalasöfn á Íslandi eru tuttugu. Þau starfa skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og reglugerð nr. 283/1994 um héraðsskjalasöfn. Þau eru sjálfstæðar skjalavörslustofnanir á vegum sveitarfélaga og lúta faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands.
Fyrstu lög um héraðsskjalasöfn nr. 7/1947 heimiluðu stofnun slíkra safna og var hið fyrsta þeirra, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað það ár. Á grundvelli laganna frá 1947 var sett reglugerð nr. 61/1951 um héraðsskjalasöfn. Með lögum nr. 13/1969 um Þjóðskjalasafn var lögð áhersla á ákvæði laganna frá 1947 um yfirumsjón Þjóðskjalasafnsins með héraðsskjalasöfnum. Með lögum um Þjóðskjalasafnið 1985 varð til heildarlöggjöf um opinber skjalasöfn á Íslandi.
Hlutverk héraðsskjalasafna er að heimta inn og varðveita skjöl sveitarfélaga og stofnana þeirra á safnsvæði sínu. Einnig að leita eftir því að fá til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnsvæðinu.