Hámundur heljarskinn Hjörsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hámundur heljarskinn Hjörsson var landnámsmaður í Eyjafirði, tvíburabróðir Geirmundar heljarskinns. Hann kom til landsins með Helga magra, sem var tengdafaðir hans.

Samkvæmt því sem segir í Landnámu nam hann fyrst Árskógsströnd frá Svarfaðardal og suður að Hörgá og bjó á Hámundarstöðum. Þegar Örn frændi hans, sem hafði numið land í Arnarfirði, frétti af honum ákvað hann að flytja sig um set til að vera nær honum. Hámundur lét hann fá land þar á ströndinni og bjó hann í Arnarnesi. Sjálfur fékk Hámundur land hjá Helga tengdaföður sinum, frá Merkigili (sem líklega var nærri Hrafnagili) til Skjálgdaldsár og bjó á Espihóli.

Hámundur var fyrst giftur Ingunni dóttur Helga magra, og var sonur þeirra Þórir bóndi á Espihóli. Þegar Ingunn dó kvæntist Hámundur annari dóttur Helga, Helgu (sem áður hafði átt Auðun rotinn Þórólfsson landnámsmann). Dóttir þeirra var Yngvildur allrasystir, kona Örnólfs sonar Þórðar slítanda landnámsmann í Hörgárdal.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók. Af snerpa.is“.