Gustav von Schmoller

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gustav Von Schmoller

Gustav Friedrich (eftir 1908: von) Schmoller (24. júní 1838 - 27. júní 1917) var þýskur hagfræðingur og leiðtogi þýska söguskólans í hagfræði. Hann var leiðandi í hópi hagfræðinga sem kölluðu sig Sozialpolitiker, sem börðust fyrir umbótum á kjörum verkalýðsins og lægri stétta sem fundu fyrir neikvæðum afleiðingum örrar iðnvæðingar. Andstæðingar og gagnrýnendur þessa hóps, bæði til hægri og vinstri, nefndu hann ævinlega Kathedersozialisten, "Stólasósíalistar," sem vísaði til þess að meðlimir hans gegndu þægilegum embættisstöðum, frekar en að vera fulltrúar verkalýðsins. Hann var stofnandi og formaður Verein für Socialpolitik, landssamtaka þýskra hagfræðinga, sem enn er starfrækt.[1]

Ævi og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Schmoller fæddist í Heilbronn og menntaði sig í Kameralískum fræðum Kameralwissenschaft, sem var samblanda af hagfræði, lögfræði, sögu, og stjórnsýslu) í Háskólanum í Tübingen (1857-1861). Á námsferli loknum gegndi stöðu prófessors við háskólana í Halle (1864-1872), Strassborg (1872-1882) og Berlín (1882-1913). Eftir 1889 var hann fulltrúi Humboldt-háskólans í Berlín í Prússnesku lávarðadeildinni.

Schmoller var afkastamikill fræðimaður, og hafði gríðarmikil áhrif á þýskt fræðasamfélag undir lok 19 aldar og í upphafi 20. aldar. Hann setti fram mjög harða gagnrýni bæði á klassíska og síðar nýklassíska hagfræði, aðferðafræði hennar og áheslu á fríverslun.[2] Hann var ákafur talsmaður þess að þýska nýlenduveldið yrði stækkað, ásamt eflingu þýsks flotavalds.

Lífsstarf Schmoller var fyrst og fremst helgað efnahagsstefnu frekar en hagfræði, og sérstaklega mótun stefnu og aðgerða sem gæti bætt kjör alþýðu og verkalýðs í stórborgum.[3] Áhrif hans á félagslegar umbætur náðu um alla Evrópu, og höfðu áhrif á til framfarahreyfingarinnar (enska: The Progressive Movement) í Bandaríkjunum og til félagslegra umbótasinna í Meiji, Japan.

Framlög til hagfræðinnar[breyta | breyta frumkóða]

Schmoller hafði gríðarlega mikil áhrif á þýska hagfræði. Auk áhrifa hans á efnahagsstefnu þýska ríkisins liggja eftir hann fjölmörg mikilvæg rit um hagsögu. Hann lagði einnig mikið af mörkum til rannsókna og umræðu um aðferðafræði hagfræðinnar.

Schmoller hafnaði því að hægt væri að öðlast hagfræðilegan skilning með byggingu módela. Aðeins nákvæm greining á efnahagslegri reynslu og gangverki efnahagslífsins gæti veitt innsýn í þau lögmál sem lægju að baki. Hagsaga væri forsenda allrar hagfræði. Söguleg greining krefðist þess að hagþróun væri skoðuð í ljósi stofnanaumgjarðar og samfélagsgerðar.[4] Schmoller var sá fyrsti til að skilgreina Merkantílisma sem ferli ríkismyndunar á tilteknu sögutímabili í röð greina sem voru birtar frá 1884-1887. Þessar greinar voru þýddar á ensku sem The Mercantile system and its Historical Significance.[5] Eli Heckscher átti eftir að þróa þá hugmynd frekar í riti sínu Merkantilismen (1931).

Schommler hafnaði því sömu leiðis að til væru algild hagfræðileg lögmál, aðeins væri hægt að greina mynstur sem hefðu tilhneygingu til að endurtaka sig. Hann hafnaði því bæði hugmyndum klassískra og ný-klassískra hagfræðinga, heldur líka þrepakenningum fyrri fulltrúa söguskólans.

Hann beitti sér af miklum þunga gegn nýklassískri hagfræði, meðal annars með því að nota akademísk áhrif sín og vald til að koma í veg fyrir að nýklassískir hagfræðingar hlytu framgang í þýskum háskólum. Hann átti í mikilvægri ritdeilu við Carl Menger á árunum 1883-1884. Schmoller tapaði þeirri deilu, fyrst og fremst vegna þess að hann kaus að svara Menger ekki efnislega, en Schmoller var þekktur fyrir fremur að beita ómálefnalegum stíl í rökræðum. Deilan, sem er almennt kölluð Methodenstreit milli nýklassískra hagfræðinga, sem kenndir voru við háskólann í Vín, og fulltrúa söguskólans, hélt hins vegar áfram, og lifir í raun enn góðu lífi.[6]

Frá níunda áratug síðustu aldar hafa verk Schmollers verið endurmetin og fundist eiga við í sumum greinum þróunarhagfræði, atferlishagfræði og stofnanahagfræði. Schmoller hefur haft áhrif á hagsögu og félagsfræði.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bonn, M. J. (1938). „Review of Gustav Schmoller und die Volkswirtschaftslehre“. The Economic Journal. 48 (192): 713–714. doi:10.2307/2225060. ISSN 0013-0133.
  2. Powers, Charles H, (1995-07). „Essays on Gustav ScbmoUer“. American Journal of Economics and Sociology (enska). 54 (3): 287–287. doi:10.1111/j.1536-7150.1995.tb03427.x. ISSN 0002-9246.
  3. Grimmer-Solem, Erik (14. ágúst 2003). The Rise of Historical Economics and Social Reform in Germany 1864-1894 (enska). doi:10.1093/acprof:oso/9780199260416.001.0001.
  4. Sandelin, Bo; Trautwein, Hans-Michael; Wundrak, Richard (7. desember 2018), „Pre-classical economic thought“, A Short History of Economic Thought, Routledge, bls. 3–14, doi:10.4324/9780203893739-2, ISBN 978-0-203-89373-9
  5. Warren Samuels (2003). A Companion to the History of Economic Thought. Blackwell Publishing. bls. 47-48.
  6. „Gustav von Schmoller“. www.hetwebsite.net. Sótt 17. september 2022.