Þorsteinn svarfaður Rauðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grund í Svarfaðardal, bær Þorsteins svörfuðar. Grundargil er í hliðinni ofan bæjarins. Hnjúkarnir sem ber við himinn eru Brennihnjúkur, Litlihnjúkur og Digrihnjúkur.

Þorsteinn svarfaður Rauðsson (eða Þorsteinn svörfuður) var landnámsmaður á Íslandi. Hann nam land í Svarfaðardal að ráði Helga magra. Frá honum og ættmennum hans segir í Svarfdæla sögu.

Landnáma segir að Þorsteinn hafi verið sonur Rauðs ruggu úr Naumudal í Noregi en móðir hans hafi veirð Hildur dóttir Þráins svartaþurs. Ekki er getið um mörk landnáms hans. Í Svarfdæla sögu segir frá því að Ljótólfur goði hafi numið land í dalnum áður en Þorsteinn kom út og hafi þeir skipt honum þannig að Þorsteinn nam land vestan Svarfaðardalsár og bjó á Grund en Ljótólfur nam eystri hluta dalsins og bjó á Hofi. Í Landnámu er Ljótólfur ekki nefndur sem landnámsmaður í dalnum en hins vegar er hans getið á nokkrum stöðum og ættir raktar til hans. Bendir það til þess að þegar Landnámabók var skráð hafi tvennum sögum farið af landnámi dalsins.

Kona Þorsteins er ekki nefnd í Landnámu en Svarfdæla segir að hún hafi heitið Ingibjörg Herröðardóttir. Börn þeira voru Karl rauði á Karlsá og Guðrún, kona Hafþórs víkings og móðir Klaufa, sem er ein aðalpersóna Svarfdæla sögu.

Viðurnefni Þorsteins, svarfaður eða svörfuður, er talið merkja ófriðarseggur.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók; af Snerpu.is“.