Gnúpa-Bárður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bárður Bjarnarson, kallaður Gnúpa-Bárður, var landnámsmaður á Íslandi, bæði í Bárðardal og suður í Fljótshverfi. Við hann á Bárðarbunga að vera kennd.

Bárður var að sögn Landnámabókar sonur Heyangurs-Bjarnar Helgasonar, hersis úr Sogni. Tveir bræður hans héldu einnig til Íslands en annar þeirra, Ásbjörn, dó í hafi. Þorgerður kona hans og synir námu land í Öræfum og einnig þriðji bróðirinn, Helgi. Bárður fór aftur á móti norður fyrir land, kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um tíma.

„Þá markaði hann að veðrum, að landviðri voru betri en hafviðri, og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói; þá fundu þeir góibeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut; hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.“ Hvað sem satt er í þessari frásögn er víst að á miðöldum var oft farið um Vonarskarð eða yfir Vatnajökul milli Norður- og Suðurlands og norðlenskir vermenn fóru yfir jökulinn til sjóróðra í Suðursveit fram á 16. öld.

Gnúpur, bústaður Bárðar sunnan fjalla, heitir nú Núpar. Landnáma getur ekki um konu hans en telur upp níu syni, þá Sigmund, Þorstein, Egil, Gísla, Nefstein, Þorbjörn krum, Hjör, Þorgrím og Björn.