Fara í innihald

Glowie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sara Pétursdóttir (f. 26. mars 1997), betur þekkt undir listamannsnafninu Glowie, er íslensk söngkona. Hún gerði plötusamning til langs tíma við Columbia Records í London í mars 2017 og fluttist til London ári síðar og starfar þar sem tónlistarkona.[1]

Sara er fædd og uppaldin í Reykjavík. Hún var listræn sem barn og hafði ánægju af listsköpun, t.d. málun, teikningu, söng og dansi. Hún stundaði einnig jazzballett um árabil og hefur líst því yfir í viðtölum að hún hafi upplifað einelti og útskúfun á yngri árum og að teikning og tónlist hafi hjálpað henni að dreifa hugann í þeim aðstæðum.[2] Að loknum grunnskóla hóf hún nám í hárgreiðslu við Tækniskólann í Reykjavík.[3]

Upphaf tónlistarferils

[breyta | breyta frumkóða]

Sara sigraði Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Tækniskólans árið 2014.[2] Í kjölfar sigursins tók hún upp listamannsnafnið Glowie og hóf síðar samvinnu við íslenska upptökuteymið StopWaitGo og í apríl 2015 kom fyrsta lag hennar „No More“ út. Lagið átti miklum vinsældum að fagna og sat í toppsæti íslenskra vinsældalista samfellt í þrjár vikur og var einnig vinsælasta lag ársins á útvarpsstöðinni FM957 árið 2015.[4] Þann 29. september 2015 gaf hún út lagið „Party“ og sat lagið á Íslenska vinsældalistanum í 10 vikur og fór hæst í 4. sæti.

Í febrúar árið 2016 gaf hún út lagið „One Day“ sem sat í sex vikur á Íslenska listanum. 4. júní sama ár kom lagið „No Lie“ út og sat það á Íslenska listanum í átta vikur, þar af tvær vikur í fyrsta sæti. Tónlistarmyndband lagsins kom út þann 22. júní 2016.

Útgáfusamningur við Columbia Records

[breyta | breyta frumkóða]

Í mars árið 2017 var tilkynnt að Glowie hefði undirritað alþjóðlegan útgáfusamning við útgáfufyrirtækið Columbia Records og taldi umboðsmaður hennar að um væri að ræða einn stærsta útgáfusamning sem íslenskur tónlistarmaður hefði gert á erlendri grundu.[5]

Þann 26. október árið 2018 kom lagið „Body“ út en það var fyrsta lagið í flutningi Glowie sem kom út hjá Columbia Records. Höfundar lagsins eru Julia Michaels, Justin Tranter, Mattias Larsson og Robin Fredriksson. Tónlistarmyndband við lagið var tekið upp í Malibu í Los Angeles og kom út 16. nóvember 2018. Myndbandinu var ætlað að stuðla að virðingu fyrir ólíkum líkamsgerðum og stuðla að sjálfstæði og jákvæðni.

Þann 22. mars 2019 gaf Glowie út lagið „Cruel“. Höfundur þess er Tayla Parx og Oscar Görres stjórnaði upptöku. Texta lagsins var ætlað að flytja þann boðskap að vanlíðan og erfið lífsreynsla væri órjúfanlegur hluti lífsins og tilfinningar sem öll upplifa á einhverjum tímapunkti. Tónlistarmyndband lagsins kom út þann 28. mars 2019.

14. júní 2019 gaf Glowie út plötuna Where I belong en á plötunni eru tvö eldri lög hennar „Body“ og „Cruel“ ásamt þremur nýjum lögum. Glowie hefur sagt að lög plötunnar séu ólík en endurspegli reynsluheim hennar og áhugasvið.

Glowie var valin af tónlistarmanninum Ed Sheeran til að koma fram á tónleikum hans á Laugardalsvelli í Reykjavík í ágúst 2019.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir, „Montar sig af að vera íslensk“ Geymt 11 ágúst 2019 í Wayback Machine, Fréttablaðið, 6. maí 2019 (skoðað 11. ágúst 2019)
  2. 2,0 2,1 Mbl.is, „Glowie var hunsuð og henni strítt“ (skoðað 11. ágúst 2019)
  3. Visir.is, „Bandarískir plöturisar banka á dyrnar“ (skoðað 11. ágúst 2019)
  4. Fm957.visir.is, „Árslisti FM957 2015“ Geymt 13 janúar 2019 í Wayback Machine (skoðað 11. ágúst 2019)
  5. Ævar Örn Jósepsson, „Glowie með útgáfusamning við Columbia“, Ruv.is (skoðað 11. ágúst 2019)
  6. Frettabladid.is, „Glowie valin til að hita upp fyrir Ed Sheeran“ Geymt 11 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 11. ágúst 2019)