Fara í innihald

Gifting

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Giftumál)
Gifting í lútherskri kirkju í Köln.

Gifting eða brúðkaup (giftumál, hjónavígsla eða pússun) er félagslegur og/eða lagalegur sáttmáli (oftast) tveggja einstaklinga sem innsiglar hjúskaparsamband þeirra en formið er misjafnt eftir þjóðfélögum, trú eða menningarkimum.

Mikill munur er á framkvæmd giftingarathafna, meðal annars eftir trúarbrögðum, menningu og þjóðfélagsstétt. Giftingarsiðir og venjur eru mjög mismunandi milli ólíkra þjóðfélaga en þó hafa næstum öll þjóðfélög einhvers konar giftingarathöfn karla og kvenna (og sumstaðar einstaklinga af sama kyni).

Giftingarathöfn getur ýmist verið trúarleg, framkvæmd af presti eða öðrum trúarleiðtoga, eða borgaraleg og þá oftast framkvæmd af dómara eða öðrum opinberum fulltrúa sem heimild hefur til að gefa fólk saman. Í sumum löndum er borgaraleg vígsla skylda en margir giftast jafnframt í kirkju; í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og fleiri löndum þarf borgaraleg vígsla fyrst að fara fram áður til kirkjulegrar hjónavígslu kemur en í Bandaríkjunum, Bretlandi, á Norðurlöndum og víðar er kirkjulega vígslan jafnframt lögformleg gifting.

Á Íslandi og í mörgum öðrum löndum getur gifting farið fram hvar sem er, innan húss eða utan, svo framarlega sem prestur, dómari eða annar sem réttindin hefur til að vígja hjón fæst til athafnarinnar, en í öðrum löndum, svo sem Bretlandi, má einungis framkvæma hjónavígslu í kirkju, á opinberri skráningarskrifstofu eða á öðrum stað sem hefur fengið til þess leyfi og er opinn almenningi. Undantekningar eru þó gerðar vegna veikinda og annarra sérstakra aðstæðna.

Í mörgum þjóðfélögum er aðeins heimiluð gifting tveggja einstaklinga og þá oftast karls og konu. Sumstaðar mega þó tveir einstaklingar af sama kyni giftast og í sumum þjóðfélögum tíðkast fjölkvæni eða fjölveri (sem þó er sjaldgæft).

Kona sem giftir sig er nefnd brúður, en karl sem giftir sig er brúðgumi. Á íslensku er talað um að karlar og konur giftist (komið af orðinu gifta sem þýðir gæfa), en jafnframt eru karlar oft sagðir kvænast eða kvongast (komið af orðinu kvon sem þýðir kona). Því er rangt að segja að kona kvænist eiginmanni sínum, hún giftist honum. [1]

Giftingarskilyrði

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi eru nú eftirfarandi skilyrði fyrir giftingu tveggja einstaklinga og þurfa væntanleg brúðhjón, áður en vígslan fer fram, að leggja fram vottorð um að könnun á hjónavígsluskilyrðum hafi farið fram:

  • Hjónaefnin þurfa að hafa náð 18 ára aldri, nema sérstakt leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis hafi fengist.
  • Einstaklingar sem sviptir hafa verið lögræði mega ekki giftast nema með samþykki lögráðamanns síns eða undanþágu ráðuneytis.
  • Hjónaefnin mega ekki vera skyldmenni í beinan legg né systkini. Kjörforeldri og kjörbarn mega ekki giftast nema ættleiðing hafi áður verið felld niður.
  • Tví- eða fjölkvæni er ekki heimilt og þarf því hjónaefni sem hefur áður verið í hjúskap að leggja fram vottorð um að hjónabandi sé löglega slitið og fjárskiptum lokið.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1996
  2. [1] Hjúskaparlög. Á vef Alþingis, skoðað 21. október 2010.