Fara í innihald

H.M.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

H.M. (réttu nafni Henry Gustav Molaison; 26. febrúar, 19262. desember, 2008), er einn þekktasti sjúklingurinn með heilaskemmd í dreka. Heilaskemmdin hafði alvarleg áhrif á minni hans.

Flogaveiki, heilaskurðaðgerð og minnisbilun

[breyta | breyta frumkóða]

H.M. þjáðist af alvarlegri flogaveiki sem ungur maður, og árið 1953 var hann sendur til heilaskurðlæknisins William Scoville, en sá skar burt hluta gagnaugablaðs beggja heilahvela, þar á meðal drekann, í tilraunaskyni til að lækna flogaveikina en eðli flogaveiki var ekki jafn vel þekkt á þessum tíma og í dag.

Eftir aðgerðina þjáðist H.M. af miklu framvirku minnisleysi, það er, hann gat ekki myndað nýjar langtímaminningar, að minnsta kosti ekki ljósar minningar („meðvitað minni“). Skammtímaminni hans var aftur á móti óskert, sem og flestar langtímaminningar sem hann hafði myndað fyrir aðgerð. Hann gat því til að mynda haldið uppi samræðum við menn en gleymdi aftur á móti jafnóðum hvað hafði farið þeim á milli. Hefði samtalið verið truflað í nokkrar mínútur mundi hann ekki eftir því að það hefði átt sér stað.

H.M. kunni að leika á píanó, og í hvert skipti sem hann spilaði eitthvað tiltekið lag, fór honum fram við það. Hann gat einnig lært að lesa stafi á hvolfi. Þetta var honum mögulegt því að ákveðinn hluti minnisins, aðferðaminnið (e. procedual memory), skemmdist ekki í aðgerðinni. Raunar virtist heilaskemmdin aðeins hafa áhrif á ljóst minni en ekki á dulið minni.

H.M. gæti hugsanlega verið ein mest rannsakaða manneskjan í sögu sálfræðinnar, og einkenni minnisleysis hans með tilliti til heilaskemmdar hans hefur á margan hátt varpað ljósi á það hvernig eðlilegt minni virkar.

Saga H.M. var kveikjan að söguþræði myndarinnar Memento. Eins og H.M. getur aðalsöguhetja hennar, Leonard, ekki myndað nýjar minningar.

  • Psychology, Henry Gleitman, Alan J. Fridlund, Daniel Reisberg, 6th. ed., 2004.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.