Fara í innihald

Ræktunartankur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gerjunarílát)
Ræktunartankur (tveggja lítra) fyrir dýrafrumur á rannsóknastofu. Umhverfi frumnanna er haldið stöðugu með stýrðri sídælingu næringarefna, basa til sýrustigsstillingar, o.fl. með peristaltískum dælum.

Ræktunartankur, gerjunarílát, gilker eða fermentor er sérútbúið ílát til ræktunar örvera eða annarra frumna með það að markmiði að framleiða afurðir, svo sem frumumassa, einfrumuprótín eða tiltekna efnaskiptaafurð. Ræktunartankar eru því grunnútbúnaður til framleiðslu á hvers kyns líftækniafurðum. Tankarnir geta verið af ýmsum stærðum og gerðum eftir notkun. Rannsóknastofutankar til skimunar eftir afurðarmyndandi frumum taka gjarnan rúmmál upp á fáeina millilítra, en ekki er óalgengt að tankar til verksmiðjuframleiðslu gerjunarafurða taki þúsundir rúmmetra.[1]

Ílát sem nefna mætti ræktunartanka hafa verið notuð til framleiðslu gerjaðra matvæla, svo sem bjórs, víns og sojasósu, um árþúsund, en nútíma ræktunartankar eru öllu þróaðri og gefa kost á nákvæmri stýringu ýmissa umhverfis- og næringarþátta, svo sem á hitastigi, blöndunarhraða, froðumyndun, sýrustigi, súrefnisstyrk, magni og hlutföllum næringarefna og ýmsu fleiru.

  1. W. Crueger og A. Crueger (1989) Lehrbuch der angewandten Mikrobiologie. R. Oldenbourg Verlag GmbH, München. ISBN 3486284029.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.