Gera hlutina sjálfur
Gera-hlutina-sjálfur er íslensk þýðing á enska hugtakinu Do-it-yourself eða DIY, en enska skammstöfunin DIY hefur eiginlega orðið alþjóðatákn fyrir þessa hugsun og stefnu.
DIY er sú stefna eða aðferð að búa til, breyta eða laga eitthvað án þess að fá aðstoð sérfræðinga né kaupa þjónustu fagaðila. Ástæðurnar geta verið margskonar. Fátækt rekur fólk til þess að nýta sér alla hluti til hins ýtrasta og eins vilja margir spara sér aðkeypta þjónustu. En svo er DIY líka aðgerðastefna meðal margra um meiri sjálfbærni, bæði með því að endurnýta og endurvinna hluti meira, kaupa/gefa notaða hluti, smíða nýja hluti úr gömlu og vera þannig ekki of háður öðrum, hvorki fólki né þjóðfélaginu.
Off-the-grid er hugtak sem er notað um það að aftengja sig frá sameiginlegu veitukerfi, oftast með því að framleiða eigið rafmagn eða eldsneyti en sumir jafnvel segja sig alfarið úr tengslum við alla aðra og þá með því að rækta allan sinn mat, smíða sjálfir sín hús og tæki og svo framvegis. Flestir anarkistar aðhyllast DIY þótt aðferðin sé ópólitísk í eðli sínu.
Meðal aðgerðasinna DIY eru þeir sem aðhyllast einkaútgáfu á tímaritum og tónlist og dreifingu hennar og er sú hugsun mjög ríkjandi í pönkmenningunni. Eins hefur komið fram með tilkomu einkatölvunnar og fleiri einfaldra rafeindatækja hreyfing fólks sem saman vinnur ókeypis að því að þróa forrit, tölvur og tæki óháð sérfræðingum og fyrirtækjum. Má þar nefna alþjóðlegu hreyfinguna Hackerspace og tækja-einingar eins og Arduino og tölvuforrit/stýrikerfi eins og Linux en með þessum hætti geta einstaklingar smíðað sér flóknari tæki til sjálfstýringar (eins og vélmenni sem dæmi) og tæki sem annars þyrfti að kaupa.
Wikipedia sjálf er í rauninni unnin með aðferð DIY að því leyti að margir vinna án aðkeyptrar vinnu sérfræðinga eða þjónustuaðila við það að smíða þann þekkingargrunn sem Wikipedia er.