Fara í innihald

Genaflökt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hér sjást niðurstöður tíu keyrslna, hverri upp á 50 kynslóðir, í stofnerfðafræðilegu hermilíkani þar sem fylgst er með tíðni einnar genasamsætu sem í upphafi er til staðar með tíðninni 0,5. Keyrslurnar voru endurteknar fyrir mismunandi stofnstærðir. Sjá má að rek samsætunnar til annað hvort eyðingar (tíðni 0,0) eða festingar (tíðni 1,0) er mun hraðara í smærri stofnum.

Genaflökt[1][2] (einnig genarek) er hugtak í stofnerfðafræði sem á við þau áhrif sem tilviljun hefur á þróun erfðaefnis lífvera, en genaflökt er mest áberandi í litlum stofni. Nánar til tekið er genaflökt áhrif á samsætutíðni í stofni lífvera sem verða af völdum handahófs við mökun og æxlun. Orsök genaflökts er tölfræðileg og liggur í úrtaksskekkju: Það, að þeir einstaklingar sem skila afkvæmum til næstu kynslóðar séu slembiúrtak úr stofninum, auk þess að hending ræður meðal tvílitna lífvera hvaða samsætur komast milli kynslóða, veldur því að samsætutíðnin breytist með tíma og ákveðnar samsætur geta horfið úr genasjóði stofnsins. Áhrif genaflökts eru því ávallt til aukinnar einsleitni og eru því minni sem stofnstærðin er meiri.[3]

Genaflökt er eitt af undirstöðuatriðum þróunar, ásamt náttúruvali, stökkbreytingum og búferlaflutningum. Ólíkt náttúruvali er genaflökt handahófskennt, en ræðst ekki af hæfni lífveranna til að þrífast í umhverfi sínu.

Stofnerfðafræðingar áttuðu sig snemma á því að genaflökt getur átt sér stað, en nokkur ágreiningur hefur verið um mikilvægi þess í þróun lífvera. Ronald Fisher taldi það í besta falli smávægilegt, en síðan Motoo Kimura setti fram hlutleysiskenningu sína hefur genaflökt fengið aukið vægi í stofnerfðafræðilegum reiknilíkönum.

  1. Orðið „genaflökt“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar
  2. Sören Sörenson (2003). Ensk-íslensk orðabók. Mál og menning. ISBN 9979-3-1651-9.
  3. S. Freeman og J. C. Herron (2004) Evolutionary Analysis (3. útg.) Pearson Education, Inc. Upper Saddle River, New jersey.