Fara í innihald

Friedrich Julius Rosenbach

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Friedrich Julius Rosenbach (f. 16. desember 1842 í Grohnde an der Weser í Neðra Saxlandi; d. 6. desember 1923 í Göttingen), einnig þekktur sem Anton Julius Friedrich Rosenbach, var þýskur læknir og örverufræðingur, þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á að stafýlókokkar og streptókokkar eru aðskildar lífverur.[1]

Faðir Friedrichs Juliusar var Bernhard Rosenbach yfirhéraðsdómari í Grohnde an der Weser, en hann var af þekktri niðursaxlenskri fræðimannaætt og afkomandi séra Johanns Philipps Rosenbach sem verið hafði sóknarprestur í Grone-hverfinu í Göttingen í þrjátíu ára stríðinu. Margir afkomenda Johanns Philipps gerðust læknar.

Friedrich Julius Rosenbach hóf nám í náttúruvísindum 1863 við Háskólann í Heidelberg og nam síðar efnafræði hjá Friedrich Wöhler í Göttingen. Hann stundaði einnig nám í Vín, París og Berlín, og varði doktorsritgerð sína í læknavísindum í Göttingen 1867, en hún fjallaði um vefjaskemmdir af völdum silfurklóríðs. Árið eftir tók hann embættispróf sem læknir. Hann var herlæknir í prússnesk-franska stríðinu 1870-1871, en habíleraði þó 1871 og fjallaði nýdoktorsritgerð hans um virkni karbólsýru gegn ígerðum í sárum. 1873 varð hann prófessor (außerordentlicher Professor) í skurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Göttingen. Árið 1920 var hann gerður að fullgildum heiðursprófessor (ordentlicher Honorarprofessor) við læknaskólann í Göttingen.

Rannsóknir Rosenbachs snerust fyrst og fremst um sýkingar í skurðsárum og önnur hagnýt málefni tengd skurðlækningum. Höfuðverk hans er oftast talið mónógrafían Mikroorganismen bei Wundinfektionskrankheiten des Menschen sem kom út 1884[2]. Þar sýndi hann fram á að streptókokkar og stafýlókokkar eru aðskildar og aðgreinanlegar lífverur og greindi jafnframt á milli tveggja mismunandi tegunda stafýlókokka, aureus og albus.

Þann 12. maí 1877 kvæntist hann Franzisku Merkel, dótturdóttur Friedrichs Wöhler, fyrrum lærimeistara hans.

Gatan Rosenbachweg í borgarhverfinu Weende í Göttingen er nefnd eftir honum. Við hana standa m.a. stúdentagarðar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Anton Julius Friedrich Rosenbach (www.whonamedit.com)“. Sótt 28. desember 2008.
  2. Rosenbach, F. J. (1884). Mikroorganismen bei den Wundinfektionskrankheiten des Menschen. J. F. Bergmann´s Verlag, Wiesbaden.