Fara í innihald

Voltaire

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá François-Marie Arouet)
Málverk af Voltaire, 24 ára að aldri eftir franska málarann Nicolas de Largillière.

François-Marie Arouet (21. nóvember 169430. maí 1778), betur þekktur undir pennanafninu Voltaire, var franskur rithöfundur og heimspekingur. Hann er þekktastur fyrir hnyttni sína, heimspekileg skrif og stuðning við mannréttindi, einkum trúfrelsi og óhlutdræg réttarhöld. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Voltaire var afkastamikill höfundur og samdi verk af fjölvíslegum toga, til að mynda leikrit, ljóð, skáldsögur, ritgerðir, söguleg og vísindaleg rit; yfir 20.000 bréf og rúmlega 2.000 bækur og bæklinga. Í orði var Voltaire ötull stuðningsmaður félagslegra umbóta, þrátt fyrir lög um stranga ritskoðun og hörð viðurlög við brotum gegn þeim. Þá telst hann til þess hóps upplýsingarmanna (ásamt Montesquieu, John Locke og Jean-Jacques Rousseau) sem höfðu með verkum sínum og hugmyndum áhrif á mikilvæga hugsuði sem tengdust amerísku og frönsku byltingunum.

Af íslenskuðum verkum Voltaires er þekktust grallaraskáldsagan Candide, ou l'Optimisme, sem í íslenskun Halldórs Laxness nefnist Birtíngur og kom fyrst út árið 1945. Birtíngur hefur tvisvar sinnum verið endurútgefinn af Hinu íslenzka bókmenntafélagi í bókaflokknum Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Í sama bókaflokki kom út árið 2007 þýðing Hólmgríms Heiðrekssonar á skáldsögunni Zadig, sem á íslensku nefnist Zadig eða örlögin, og fjallar um leit titilpersónunnar að hamingjunni og könnun hennar á raunverulegum verðleikum ýmissa lystisemda.

Fyrstu skref

[breyta | breyta frumkóða]

François-Marie Arouet fæddist í París. Hann var yngstur fimm barna (aðeins þrjú komust á legg) þeirra François Arouet (f. 1650, d. 1. janúar 1722), lögbókanda, og konu hans, Marie Marguerite d'Aumart (f. u.þ.b. 1660, d. 13. júlí 1701), sem var af göfugum ættum. Voltaire gekk til náms hjá jesúítum í Collège Louis-le-Grand (1704 – 1711). Þar lærði hann latínu og grísku. Síðar á ævinni náði hann afburðatökum á ítalíu, spænsku og ensku.

Undir lok skólagöngu sinnar hafði Voltaire ákveðið að gerast rithöfundur. Sú staðfesta gekk þvert á óskir föður hans, sem vildi að hann yrði lögfræðingur. Voltaire þóttist starfa sem aðstoðarmaður lögfræðings í París, en varði mestum hluta tíma síns í að yrkja ljóð. Þegar faðir hans komst að hinu sanna, sendi hann Voltaire í laganám, að þessu sinni til Caen í Normandí. Voltaire þráaðist við og hélt áfram að rækta samband sitt við skáldgyðjuna. Einnig skrifaði hann ritgerðir og sagnfræðistúdíur. Hnyttni Voltaires kom honum í mjúkinn hjá ýmsum hástéttarfjölskyldum sem hann umgekkst. Faðir hans togaði í spotta og kom honum í starf ritara hjá sendiherra Frakklands í Hollandi. Þar varð Voltaire ástfanginn af frönskum flóttamanni sem nefndist Catherine Olympe Dunoyer. Faðir Voltaires kom í veg fyrir að þeim tækist að strjúka á brott saman og Voltaire var gert skylt að snúa aftur til Frakklands.

Fyrstu ár Voltaires tengdust flest París á einn eða annan hátt. Hann komst snemma í kast við hið opinbera vegna þróttmikilla árása sinna á stjórnvöld og kaþólsku kirkjuna. Þetta leiddi meðal annars til nokkurra tugthúsvista, auk útlegðarskeiða.

Nafnið „Voltaire“

[breyta | breyta frumkóða]

François-Marie Arouet tók upp nafnið „Voltaire“ árið 1718, í senn sem höfundarnafn og til daglegra nota. Orðið er talið byggjast á stafabrenglun (anagrami) á „AROVET LI“, latneskri stafsetningu eftirnafns hans, Arouet, og upphafsstafa orðanna „le jeune“ (hinn yngri). Nafnið endurómar einnig í öfugri röð atkvæði nafn sveitaseturs í Poiteu-héraðinu í Frakklandi: „AirVault“. Upptaka nafnsins „Voltaire“, í kjölfar fangelsunar höfundarins í Bastillunni, markar í augum margra formlegan aðskilnað hans frá fjölskyldu sinni og fortíð.

Á það má raunar einnig benda að Voltaire notaði, svo vitað sé, að minnsta kosti 178 höfundarheiti á ferli sínum.[heimild vantar]

Síðari ár

[breyta | breyta frumkóða]

Hin hvassa, hnyttna og oft gagnrýna tunga Voltaires gerðu hann afar óvinsælan á meðal margra samtíðarmanna sinna í Frakklandi. Þar var hástéttin ekki undanskilin. Háðsleg tilsvör og skrif Voltaires leiddu til þess að hann var dæmdur í útlegð frá Frakklandi. Á meðan á henni stóð dvaldist hann á Bretlandseyjum. Sú reynsla sem Voltaire varð fyrir þar átti eftir að lita ýmsar skoðanir hans og skrif í framtíðinni.

Eftir næstum þriggja ára útlegð í Bretlandi sneri Voltaire aftur til Parísar og gaf út ritgerðarsafnið Heimspekilegar hugleiðingar um hina ensku. Í þessu riti sínu komst hann að þeirri niðurstöðu að hin stjórnarskrárbundna konungsstjórn í Englandi væri þróaðari og samræmdist betur mannréttindum en franska stjórnarfyrirkomulagið, einkum hvað trúfrelsi snerti. Hugmyndir Voltaires mættu mikilli andstöðu. Ritgerðir hans voru brenndar og höfundurinn neyddist að nýju til að yfirgefa París.

Næst hélt hann til Château de Cirey, herragarðs á mörkum Champagne- og Lorraine-héraðanna. Þar stofnaði hann til ástarsambands við markgreifynju nokkra, Gabrielle Émilie le Tonnelier de Breteuil að nafni. Sambandið entist í fimmtán ár og byggðist að stórum hluta á vitsmunalegum skyldleika þeirra tveggja. Í sameiningu söfnuðu þau yfir 21.000 bókum til rannsókna og varðveislu. Auk þess framkvæmdu þau tilraunir í náttúruvísindum í rannsóknarstofu Château de Cirey.

Elémens de la philosophie de Neuton, 1738

Voltaire hafði nú lært af reynslunni. Hann gætti þess að verða sem minnst uppsigað við yfirvöld og einbeitti sér að skrifum og rannsóknum á sviði vísinda og sagnfræði. Meðal áhrifavalda hans var breski vísindamaðurinn Sir Isaac Newton og enski heimspekingurinn og vinur hans John Locke.

Voltaire þótti lífið á herragarðinum (ATH.) þó takmarkað er til lengdar lét. Í Parísarheimsókn árið 1744 varð hann að nýju ástfanginn, nú af frænku sinni, Marie Louise Mignot. Löngu síðar bjuggu þau saman, hugsanlega einungis á platónskum forsendum, og héldust saman allt til dauða Voltaires. Markgreifynjan, sem einnig hafði orðið sér úti um elskhuga, lést af barnsförum árið 1749.

Eftir dauða markgreifynjunnar hélt Voltaire til Parísar. Þar ritaði hann að líkindum eitt hið fyrsta sem skrifað var af vísindaskáldskap; sendiherrar frá framandi plánetu koma til jarðarinnar og verða vitni af heimskupörum mannkyns. Enn og aftur tókst honum svo að reita ráðamenn til reiði og fá þá til að kveikja í verkum sínum.

Voltaire var ekki vært í París, svo að hann hélt til Geneva, og síðan til Ferney, þar sem hann átti eftir að verja síðustu tuttugu árum ævi isinnar. Þar ritaði hann árið 1759 skáldsöguna Birtíng, háðsádeilu á verk Gottfried Wilhelm Leibniz og kenningar og kennslur jesúíta. En Voltaire gekk til náms hjá jesúítum í Collège Louis-le-Grand (1704 – 1711). Fimm árum síðar gaf hann svo út öndvegisrit sitt á sviði heimspeki, Dictionnaire Philosophique, safn greina sem fjölluðu einkum um sögu kristninnar og kenningar og kreddur innan trúarbragðanna.

Dauði og greftrun

[breyta | breyta frumkóða]
Voltaire sem mótað af Jean-Antoine Houdon árið 1778. Í safni National Gallery of Art

Í febrúar árið 1778 hélt Voltaire til Parísar í fyrsta skipti í tuttugu ár, með það fyrir augum að vera viðstaddur frumsýningu nýjasta harmleiks síns, Irene. Ferðalagið spannaði fimm daga og tók mjög á rithöfundinn, sem kominn var á 84. aldursár sitt. Hinn 28. febrúar taldi Voltaire að sinn tími í þessum heimi væri þrotinn. Hann skrifaði: „Ég dey við tilbeiðslu guðs, fullur hlýju í garð vina minna, án kala til óvina minna, og lýsi frati á hjátrú.“ Hann náði sér þó á strik og lifði að sjá frumsýningu leikverksins. Honum hrakaði hins vegar fljótt aftur, og lést hinn 30. maí árið 1778. Til er saga sem hermir að prestur nokkur hafi á hinstu stundu Voltaires hvatt hann til að afneita í orði djöflinum og snúa sér til guðs, og þá hafi skáldið mælt: „Nú er ekki rétti tíminn til að eignast fleiri óvini.“

Á dánarbeðinum neitaði Voltaire að draga til baka gagnrýni sína á kirkjuna. Því var lagt bann við kristilegri útför hans. Engu að síður tókst vinum hans að grafa hann leynilega í klaustri Scellières í Champagne-héraðinu áður en bannið var gefið út. Heili hans og hjarta voru varðveitt hvort í sínu lagi. Síðar leit Þjóðarþing Frakklands á hann sem fyrirrennara að frönsku byltingunni og lét flytja jarðneskar leifar hans til Parísar. Þar var blásið til heljarmikillar athafnar með hljóðfæraleik og lúðrablæstri. Er áætlað að milljón manns hafi flykkst um stræti borgarinnar í skrúðgöngu sem haldin var af þessu tilefni. Líkamsleifar Voltaires eru nú geymdar í París.

Þess má geta að þýdd hefur verið á íslensku spænska bókin El Corazon de Voltaire eða Hjarta Voltaires, eftir rithöfundinn Luis López Nieves. Í bókinni vaknar spurning um það hvort ein þjóðargersema Frakka, hjarta Voltaires, sem varðveitt er í skríni í París, sé raunverulega úr hugsuðinum kunna.

Voltaire sýndi frá unga aldri hæfileika á sviði ljóðlistar. Fyrstu útgefnu verk hans voru enda af þeim toga. Hann samdi í senn lengri verk og fjölmörg styttri. Hin síðarnefndu eru jafnan talin fremri hinum lengri.

Stór hluti verka Voltaires voru skrifuð sem hluti af ritdeilum. Birtíngur ræðst til að mynda gegn því hlutleysi sem sprettur af bjartsýnisheimspeki Leibniz, auk þess sem stórum hluta verkna hans var beint gegn kirkjunni. Megnið af skrifum hans felur í sér hvassa ádeilu.

Einhver þekktasta tilvitnun sem tíðum er eignuð Voltaire er rangfeðruð. Þá er hermt að hann hafi ritað: „Ég er ósammála því sem þú segir, en ég mun fram í rauðan dauðan verja rétt þinn til þess að halda skoðun þinni fram.“ Í raun réttri komu þessi orði úr penna Evelyn Beatrice Hall. Hins vegar eru honum réttilega eignuð orðin: „Ef guð væri ekki til, þá væri nauðsynlegt að finna hann upp.“ Og einning, „Almenn skynsemi er ekki svo almenn.“

Voltaire stóð í miklum einkalegum bréfaskriptum á meðan hann lifði og skrifaði meira en 20.000 bréf. Safnútgáfa Theodores Besterman af þessum skrifum Voltaires spannar 102 bindi. Mörgum þykir ritfimi höfundarins rísa hátt í ýmsum þessara skrifa og ekki einungis bera vott um hnyttni hans og málsnilld, heldur einnig hlýjan vinhug, næmt tilfinningaskyn og skarpa hugsun.

  • „Hver var Voltaire og hver var framlag hans til heimspekinnar?“. Vísindavefurinn.