Þórsnes
Þórsnes er nes sem gengur út úr norðanverðu Snæfellsnesi c.a. fyrir miðju. Það liggur milli Vigrafjarðar (Sauravogs) og Hofsvogs. Nesið er tiltölulega láglent, en stöku borgir skaga upp úr mýrlendi og er Helgafell þeirra stærst. Yst á Þórsnesi stendur höfuðstaður Snæfellinga, Stykkishólmur. Nesið er mjög vogskorið og margar eyjar og sker liggja í nágrenni þess.
Þórsness er fyrst getið í Eyrbyggju. Þórólfur Mostrarskeggur landnámsmaður kastaði öndvegissúlum sínum fyrir borð þegar hann kom að ströndum Íslands og sagðist setjast þar að er Þór myndi láta þær að landi koma. Súlurnar komu að landi við það nes sem hann svo nefndi Þórsnes. Hann nam þar land og setti bú sitt að Hofsvogi.
Í tíð Þórólfs var héraðsþing Snæfellinga og síðar Vestfirðinga valinn staður á Þórsnesi. Nefndist þingið Þórsnesþing, og var haldið að Þingvöllum. Mesta höfuðból á Þórsnesi var lengi Helgafell, en þar var klaustur frá 1184 til siðaskipta. Verslun hófst á Þórsnesi í landi Grunnasundsnes í kringum árið 1590 og upp úr þeirri verslun spratt svo Stykkishólmur.
Árið 1996 fannst 87° heitt vatn í landi Hofstaða á Þórsnesi.