Fatíma Jinnah

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fatíma Jinnah
فاطمہ جناح
Vaxstytta af Fatímu Jinnah á Madame Tussauds-safninu í London.
Fædd31. júlí 1893
Dáin9. júlí 1967 (73 ára)
ÞjóðerniPakistönsk
MenntunHáskólinn í Kalkútta (D.D.S)

Fatíma Jinnah (úrdú: فاطمہ جناح) (31. júlí 1893 – 9. júlí 1967) var pakistönsk stjórnmálakona. Hún var yngri systir Muhammads Ali Jinnah, stofnanda og fyrsta landstjóra Pakistans. Fatíma Jinnah var leiðtogi pakistönsku stjórnarandstöðunnar frá árinu 1960 til dauðadags árið 1967.

Fatíma Jinnah er þekkt fyrir stuðning sinn við borgaraleg réttindi. Hún er gjarnan kölluð Madar-e-Millat („móðir þjóðarinnar“) og Khatun-e-Pakistan („lafði Pakistans“). Margar stofnanir og opinberir staðir í Pakistan bera nafn hennar.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Fatíma Jinnah tók árið 1954 árangursríkan þátt í kosningabaráttu pakistanska Múslimabandalagsins, stjórnmálaflokksins sem bróðir hennar heitinn, landsfaðirinn Muhammad Ali Jinnah, hafði stofnað. Í næstu kosningum þar á eftir var flokkurinn hins vegar gersigraður og tapaði öllum þingsætum sínum. Fatíma Jinnah var lítið áberandi næsta áratuginn í pakistönskum stjórnmálum.[1]

Í forsetakosningum Pakistans árið 1964 bauð Fatíma Jinnah sig fram fyrir bandalag sameinaðrar stjórnarandstöðu á móti sitjandi forsetanum Ayub Khan. Jinnah sakaði Khan um að hafa svikið málstað Muhammads Ali Jinnah og um að hafa troðið fótum lýðræði í Pakistan.[2] Ayub Khan var þá afar óvinsæll og stjórnarandstöðuflokkar þvert yfir pólitíska litrófið sammældust um að Fatíma yrði forsetaframbjóðandi þeirra gegn honum. Meðal annars aflaði hún sér stuðnings herforingjans Azam Khan, sem hafði hjálpað Ayub Khan að ræna völdum í landinu árið 1958. Fatíma Jinnah ávann sér mikla alþýðuhylli í kosningabaráttunni og var víða kölluð Madar-e-Millat, móðir þjóðarinnar.[1]

Forsetakosningarnar fóru þannig að í kjörmannaráðinu, sem taldi til sín um 80.000 meðlimi, hlaut Ayub Khan um 50 þúsund atkvæði en Jinnah um 29 þúsund. Fatíma Jinnah grunaði Khan um græsku og sagði kosningarnar bera þess merki að þjóðin hefði ekki fengið kost á að láta skoðun sína í ljós.[2]

Andlát[breyta | breyta frumkóða]

Fatíma Jinnah lést í Karachi þann 9. júlí 1967. Opinber dánarorsök var hjartagalli en orðrómar fóru fljótt á kreik um að hún hefði verið myrt af sömu aðilum og drápu forsætisráðherrann Liaquat Ali Khan. Árið 2003 endurvakti frændi hennar, Akbar Pirbhai, deilurnar með því að leiða líkur að því að hún hefði verið myrt.[3][4] Þegar Fatíma Jinnah lést árið 1967 fór greftrunarathöfnin fram í samræmi við siði sjíatrúar og hún hlaut ríkisútför.[5][6] Hún var grafin við hlið bróður síns, Muhammad Ali Jinnah, í Mazar-e-Quaid í Karachi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Fatíma Jinnah“. Lesbók Morgunblaðsins. 6. desember 1964. bls. 2.
  2. 2,0 2,1 „Forsetakosningarnar í Pakistan“. Morgunblaðið. 9. janúar 1965. bls. 10.
  3. „New twist to Miss Jinnah controversy“. DAWN.COM. 23. júlí 2003.
  4. „Fatima Jinnah: Mother Of Nation (Mader-e Millat)“. Pakistan Herald. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. apríl 2012. Sótt 31. desember 2011.
  5. „The Quaid and the Quetta massacre“.
  6. „Shias And Their Future In Pakistan“.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.