Fara í innihald

Erzsébet Báthory

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Erzsébet Báthory de Ecsed
Málverk af Erzsébet Báthory. Þessi mynd er eftirgerð af samtímamálverki frá árinu 1585 sem hefur ekki varðveist.
Skjaldarmerki Erzsébetar Báthory
Fædd7. ágúst 1560
Dáin21. ágúst 1614 (54 ára)
Csejthe, Ungverjalandi
ÞjóðerniUngversk
StörfAðalskona
MakiFerenc Nádasdy
BörnPaul, Anna, Ursula og Katherine

Erzsébet Báthory de Ecsed greifynja (7. ágúst 1560 – 21. ágúst 1614)[1] var ungversk aðalskona og meintur raðmorðingi af ungversku Báthory-aðalsættinni, sem réð yfir landi í konungsríkinu Ungverjalandi (þar sem nú er Ungverjaland og Slóvakía) og Transylvaníu (þar sem nú er Rúmenía) innan Habsborgaraveldisins. Heimsmetabók Guinness hefur nefnt Báthory sem afkastamesta kvenkyns raðmorðingja í sögunni[2] en óvíst er nákvæmlega hve marga hún drap. Báthory og fjórir viðorðsmenn hennar voru sökuð um að pynta og myrða hundruðir ungra kvenna frá 1585 til 1609.[3] Hæsta tala fórnarlamba Báthory sem var nefnd í réttarhöldum hennar var 650. Þessi tala er byggð á frásögn þernu að nafni Súsanna sem sagði að hirðmaðurinn Jakab Szilvássy hefði séð þessa talningu í einni af bókum Báthory. Bókin var þó aldrei gerð opinber og Szilvássy minntist ekki á hana í eigin vitnisburði.[4] Þrátt fyrir mikil sönnunargögn gegn Erzsébet beitti fjölskylda hennar áhrifastöðu sinni til að koma í veg fyrir að réttað yrði yfir henni. Hún var fangelsuð í desember árið 1609 í Čachtice-kastala í Efra-Ungverjalandi (nú Slóvakíu) og haldið í einangrun í gluggalausu herbergi þar til hún lést fimm árum síðar.

Um 300 manns báru vitni um morð Báthory og ofbeldisverk auk þess sem limlest lík og stúlkur í fangelsi fundust þegar hún var handtekin.[5] Sögusagnir fóru á flug eftir dauða hennar um að Báthory hefði hagað sér eins og vampíra og til dæmis baðað sig í blóði óspjallaðra meyja til þess að viðhalda ungdómi sínum. Báthory varð þjóðsagnapersóna í Ungverjalandi og er enn alræmd til þessa dags.[6] Báthory er oft nefnd í sömu andrá og Vlad Drakúla sem ein af fyrirmyndunum að Drakúla greifa og öðrum vampírusögum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Britannica
  2. „Most prolific female murderer“. Heimsmetabók Guinness. Guinness World Records Limited. Sótt 5. júlí 2018.
  3. Ramsland, Katherine. „Lady of Blood: Countess Bathory“. Crime Library. Turner Entertainment Networks Inc. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. mars 2014. Sótt 5. júlí 2018.
  4. Thorne, Tony (1997). Countess Dracula. London: Bloomsbury. bls. 53.
  5. Bréf frá Thurzó til konu sinnar, skrifað 30. desember 1610, prentað í Farin, Michael (1989). Heroine des Grauens: Wirken und Leben der Elisabeth Báthory: in Briefen, Zeugenaussagen und Phantasiespielen (þýska). bls. 293. OCLC 654683776.
  6. „The Plain Story“. Elizabethbathory.net. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. október 2013. Sótt 18. nóvember 2013.