Enrique Peña Nieto
Enrique Peña Nieto | |
---|---|
Forseti Mexíkó | |
Í embætti 1. desember 2012 – 1. desember 2018 | |
Forveri | Felipe Calderón |
Eftirmaður | Andrés Manuel López Obrador |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. júlí 1966 Atlacomulco, Mexíkó |
Stjórnmálaflokkur | Byltingarsinnaði stofnanaflokkurinn |
Maki | Mónica Pretelini Sáenz (g. 1993; d. 2007) Angélica Rivera (g. 2010) |
Börn | 5 |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Enrique Peña Nieto (f. 20. júlí 1966), oft kallaður EPN, er mexíkóskur stjórnmálamaður sem var 57. forseti Mexíkó, frá árinu 2012 til ársins 2018. Hann var áður ríkisstjóri Mexíkófylkis frá 2005 til 2011 og þar áður þingfulltrúi fyrir fylkið frá 2003 til 2004.
Peña Nieto fæddist í Atlacomulco og ólst upp í Toluca í Mexíkófylki. Hann gekk í háskólann Universidad Panamericana í Mexíkóborg og útskrifaðist með bakkalársgráðu í réttarheimspeki. Hann hóf stjórnmálaferil sinn eftir að hafa útskrifast með mastersgráðu úr háskólanum Instituto Tecnológico y de Estudios Superiores de Monterrey og gekk í Byltingarsinnaða stofnanaflokkinn (Partido Revolucionario Institucional; PRI) árið 1984. Hann vann sem embættismaður í Mexíkóborg en kleif síðan metorðastigann á tíunda áratugnum og var kjörinn ríkisstjóri Mexíkófylkis árið 2005. Sem ríkisstjóri sór hann að hann myndi standa við 608 kosningaloforð (compromisos) og gekk misvel upp. Í ríkisstjóratíð hans var hann gagnrýndur fyrir hækkandi morðtíðni og ýmis heilbrigðisvandamál. Peña Nieto hóf kosningabaráttu sína árið 2011 fyrir forsetakosningarnar sem haldnar voru árið eftir. Meðal áherslumála hans var að bæta keppnishæfni mexíkóska efnahagsins og að gera ríkisstjórnina gegnsærri. Peña Nieto mældist með mikinn stuðning í skoðanakönnunum og eftir að ýmsir nafntogaðir keppinautar hans drógu framboð sín til baka var hann kjörinn forseti árið 2012 með 38,14% greiddra atkvæða.
Fyrstu fjögur ár sín í embætti braut Peña Nieto upp einokunarhringi, gerði orkuiðnað Mexíkó frjálslyndari, kom á umbótum í menntakerfinu og nútímavæddi fjármálaeftirlit ríkisins.[1]
Á embættistíð Peña Nieto varð hins vegar pólitísk pattstaða í Mexíkó til þess að spilling, glæpatíðni og eiturlyfjasala versnaði í landinu. Peña Nieto skrifaði undir „sáttmála fyrir Mexíkó“ (sp. Pacto por México) ásamt leiðtogum annarra mexíkóskra stjórnmálaflokka til þess að mýkja á deilum milli flokkanna og hvetja til þess að unnið yrði saman að þverpólitískum frumvörpum. Efnahagsumbætur Peña Nieto liðu fyrir heimskreppuna og lækkun á olíuverði í byrjun annars áratugs 21. aldar og stuðningur við hann beið hnekki. Léleg meðhöndlun Peña Nieto á mannráni mexíkóskra lögreglumanna á 43 skóladrengjum í Iguala árið 2014 og á flótta eiturlyfjabarónsins Joaquíns „El Chapo“ Guzmán úr fangelsi árið 2015 gerði hann enn óvinsælli.
Mat á forsetatíð Peña Nieto hefur verið fremur misjafnt. Gagnrýnendur hans hafa bent á ýmis misheppnuð stefnumál hans og léleg tengsl hans við almenning en stuðningsmenn hans á aukna keppnishæfni mexíkóska efnahagsins og aukna samvinnu stjórnmálaflokkanna. Í byrjun forsetatíðar sinnar mældist Peña Nieto með stuðning um 50% Mexíkana í skoðanakönnunum. Á miðri embættistíð sinni mældist stuðningurinn við hann yfirleitt í kringum 35% en í janúar árið 2017 var hann komin niður í 12%.[2] Peña Nieto er því talinn einn umdeildasti og óvinsælasti forseti í sögu Mexíkó.[3][4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Tepperman, Jonathan (14. október 2016). „How Mexico's president may have rescued his country“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 4. júlí 2018.
- ↑ Eric Martin @EMPosts More stories by Eric Martin. „Mexican President's Support Plumbs New Low as Gasoline Soars“. Bloomberg. Sótt 2018-06-4.
- ↑ „3. Poor ratings for Peña Nieto, political parties“. Pew Research Center's Global Attitudes Project (bandarísk enska). 14. september 2017. Sótt 4. júlí 2018.
- ↑ Argen, David (9. janúar 2016). „Donald Trump is no longer Mexico's most hated man. It's Enrique Peña Nieto“. Macleans.ca (bandarísk enska). Sótt 4. júlí 2018.
Fyrirrennari: Felipe Calderón |
|
Eftirmaður: Andrés Manuel López Obrador |