Elísabetarkirkjan í Marburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elísabetarkirkjan er í gotneskum stíl

Elísabetarkirkjan er þekktasta kirkja þýsku borgarinnar Marburg. Hún var reist á 13. öld og er helguð heilagri Elísabetu frá Thüringen. Kirkjan var pílagrímsstaður á miðöldum.

Saga kirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Höggmynd af heilagri Elísabetu. Hún heldur á módel af kirkjunni.
Helgriskrín Elísabetar

Elísabet var landgreifafrú og ung ekkja í Marburg. Hún lést aðeins 24 ára gömul og hafði þá reist spítala og þjónustað sjúka. 1235 var hún tekin í tölu dýrlinga og sama ár hófst smíði kirkjunnar ofan á leiði hennar. Kirkjan var vígð 1283 og helguð henni. Kirkjan er byggð í gotneskum stíl og var notuð sem fyrir annarra kirkna. Kórinn er þrískiptur, þ.e. tveir hliðarkórar ganga út frá aðalkórnum og mynda nokkurs konar kross. Turnarnir eru 80 metra háir. Á norðurturninum er stjarna, á suðurturninum er krossriddari. Strax eftir vígsluna tók fólk að streyma til Marburg til tilbeiðslu í kirkjunni, enda var heilögu Elísabet mjög kunn. Einnig þjónaði kirkjan sem hvíldarstaður landgreifanna allt til 16. aldar, er siðaskiptin hófust. Í upphafi var kirkjan eign þýsku riddarareglunnar. Við siðaskiptin varð kirkjan lútersk og er hún það enn. 1539 lét landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli, sem kom siðaskiptunum á í héraðinu, flytja líkamsleifar heilagrar Elísabetar burt, til að varna því að kaþólskir pílagrímar kæmu þangað. Líkamsleifum hennar var skipt í þrennt og eru nú geymd í Elísabetarklaustrinu í Vín, í borgarsafninu í Stokkhólmi og í borginni Kosice í Slóvakíu. Kór kirkjunnar var á kaþólska tímanum aðeins aðgengilegur fyrir meðlimi riddarareglunnar, en við siðaskiptin var kirkjan öll opnuð fyrir almenna kirkjugesti. Listaverk voru fjarlægð og eyðilögð. Kaþólska kirkjan náði ekki fótfestu í Marburg fyrr en síðla á 18. öld. Þá var engin bygging sem þeir gátu notað. Því var brugðið á það ráð í upphafi 19. aldar að skipta Elísabetarkirkjunni í tvennt, þannig að annar hlutinn var notaður fyrir kaþólikka, en hinn hlutinn fyrir lúterstrúarmenn. Eftir að heimstyrjöldinni síðari lauk voru kistur gamla ríkisforsetans, Pauls von Hindenburg og eiginkonu hans Gertrud, fluttar í Elísabetarkirkjuna og þar eru þær enn í hliðarkapellu í norðurturninum. Mesta gersemi kirkjunnar er þó helgiskrín heilagrar Elísabetar.

Markvert[breyta | breyta frumkóða]

  • Alls eru 10 kirkjuklukkur í turnunum. Sú elsta er Maríuklukkan, en hún var gerð um 1280 og er því með eldri klukkum Þýskalands. Hún vegur 670 kg. Þyngsta klukkan er Elísabetarklukkan frá 1380, en hún vegur 3,7 tonn.
  • Orgel kirkjunnar er nýtt, en það var sett upp 2006.
  • Í Houston í Texas var reist eftirmynd af Elísabetarkirkjunni. Hún var reyndar gerð úr steinsteypu, en líkist þó að öllu leyti kirkjunni í Marburg. Hún tekur 1.500 manns í sæti og var vígð 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Elisabethkirche (Marburg)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.