Fara í innihald

Eiturþörungar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eiturþörungar eru svifþörungar í sjó sem innihalda eiturefni sem skaðleg eru mönnum og dýrum. Við ákveðin hagstæð skilyrði fjölgar þörungum mikið og þeir mynda stórar breiður í sjónum sem kallast þörungablómi. Eitrun hjá mönnum lýsir sér sem skelfiskeitrun þ.e. menn veikjast eftir að hafa neytt eitraðs skelfisks sem nærst hefur á eitruðum þörungum.

Eftirlit með eiturþörungum

[breyta | breyta frumkóða]

Með vaxandi fisk- og skeldýraeldi er fylgst betur með magni eitraðra svifþörunga í sjó og þörungablóma. Eitranir af völdum þörunga virðast hafa aukist og er það talið geta verið af manna völdum t.d. vegna aukinna skipaferða og vegna þess að aukið magn næringarefna berst til sjávar vegna mengunar af mannavöldum. Sennilegt er þó talið að stóraukið eftirlit og mælingar skýri aukninguna að stóru leyti og eitrun af völdum þörunga sé ekki nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni.

Sagnir um eiturþörunga

[breyta | breyta frumkóða]

Sagnir herma að fyrir mörgum öldum hafi Indjánar í Norður-Ameríku forðast að borða kræklinga vissa hluta ársins. Elsta ritaða heimildin um þörungablóma eitraðra þörunga er í Biblíunni í Mósebók 7. versi 20-21 en þar stendur að allt vatn í ánni Níl hafi orðið að blóði og fiskarnir dáið. Fyrsta skráða tilvikið í heiminum um dauðsfall vegna skelfiskeitrunar er frá árinu 1793 í Bresku Kolumbíu í Kanada en þá lést maður úr áhöfn landkönnuðarins Georg Vancouver eftir neyslu skelfisks.

Hvers vegna eru sumir þörungar eitraðir?

[breyta | breyta frumkóða]

Það eru um 200 þörungategundir sem geta verið eitraðar. Það eru ýmsar kenningar um hvers vegna þörungar framleiða eiturefni. Ein kenningin er að eiturefnin séu efni sem þörungar nota til boðskipta, til að finna hvern annan við kynjaða æxlun. Önnur kenning er að eiturefnin hjálpi þörungunum í lífsbaráttunni með því að hindra vöxt og þar með samkeppni annarra þörunga og komi í veg fyrir að dýrasvif éti hina eitruðu þörunga.

Eiturþörungar og efnavopn

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar tegundir skoruþörunga framleiða eitrið saxitoxin. Það er baneitrað og afar skjótvirkt og er eitt af þeim efnum sem mögulegt er að nota sem efnavopn í hernaði.

Eitranir af völdum þörunga

[breyta | breyta frumkóða]

Aðallega er þrenns konar eitrun sem talið er þurfi að varast í Norður-Atlantshafi:

  • PSP eitrun (paralytic shellfish poisoning). Skoruþörungar af ættkvíslunum Alexandrium , Pyrodinium og Gymnodinium sem valda PSP eitrun og hefur hún greinst úr skelfiski hér við land nokkrum sinnum.
  • DSP eitrun (diarrhetic shellfish poisoning). Skoruþörungar af ættskvíslum Dinophysis og Prorocentrum sem geta valdið DSP-eitrun. DSP eitrun hefur greinst úr skelfiski við Ísland nokkrum sinnum.
  • ASP eitrun (amnesic shellfish poisoning).

Tegundir eiturþörunga

[breyta | breyta frumkóða]

Tegundir eiturþörunga sem þekktar eru úr strandsjónum við Ísland:

  • Dinophysis
  • Dinophysis norvegica , veldur DSP-eitrun.
  • Dinophysis acuminata , veldur DSP-eitrun.
  • Dinophysis acuta , veldur DSP-eitrun.
  • Phalacroma rotundatum, veldur DSP-eitrun (áður D. rotundata)
  • Alexandrium
  • Alexandrium tamarense, veldur PSP-eitrun.
  • Alexandrium ostenfeldii , veldur PSP-eitrun.
  • Pseudo-nitzschia
  • Pseudo-nitzschia pseudodelicatissima , veldur ASP-eitrun.
  • Pseudo-nitzschia seriata , veldur ASP-eitrun.
  • Pseudo-nitzschia delicatissima, veldur ASP-eitrun.