Fara í innihald

Eiríkur Smith

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Landslag

Eiríkur Smith Finnbogason (f. 9. ágúst 1925 í Hafnarfirði, d. á Hrafnistu 9. september 2016) var íslenskur myndlistamaður.

Móðir hans var Sigríður Benjamínsdóttir og faðir hans Finnbogi Kolbeinsson. Þeirra samband varði stutt og síðar gekk Sigríður að eiga Ástvald Þorkelsson og átti með honum sex börn.[1] Fyrstu ár ævi sinnar bjó Eiríkur í Straumi, beint á móti þar sem Álverið í Straumsvík stendur nú. Hafnarfjörður hefur þó ávallt talist heimabær Eiríks en þangað flutti hann ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var fimm ára gamall og hefur búið þar síðan.[2] Listaáhugi Eiríks kom fljótt í ljós og tók hann ungur að aldri með sér stílabók hvert sem hann fór til að krota hugmyndir sínar í.[3] Í raun mætti segja að Eiríkur hafi verið heppinn því móðir hans ýtti undir listaáhuga hans frekar en að draga úr honum, þrátt fyrir misjafnar skoðanir annarra á því.[4] Eftir að Eiríkur flutti með fjölskyldunni inn í hjarta Hafnarfjarðar var hrjóstugt landslag Straumsvíkur alltaf í minni hans og tekur hann yfirleitt hrjóstugt landslag og drungalegt veður fram yfir sólskin og gróðursæld í málverkum sínum.[5]

Eiríkur er af venjulegri verkamannastétt og komst ekki í gagnfræðiskóla. Fjölskyldan hafði ekki efni á að missa hann sem fyrirvinnu. Þó kom Guðjón Guðjónsson því að að Eiríkur yrði kostaður í kvöldskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem. Þar stundaði Eiríkur nám við myndlist veturinn 1939-1940. Þessi reynsla var Eiríki dýrmæt en þó varð bið á að hann héldi áfram með nám.[6]

Næstu ár vann Eiríkur mikið en loks kom að því að hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóli Íslands en þar stundaði hann nám á árunum 1946 – 1948. Þá var Luðvig Guðmundsson skólastjóri skólans en aðal kennarar myndlistadeildar voru þeir Kurt Zier og Jóhann Briem.[7] Sumarið 1948 var Eiríkur komin með talsvert magn mynda í kringum sig og hélt því sína fyrstu sýningu í Sjálfsstæðishúsinu í Hafnarfirði. Þar seldi Eiríkur 60 myndir og þrátt fyrir að verðið væri ekki hátt þá nægði það samt sem áður til uppihalds í Kaupmannahöfn í tvo vetur. Efniviðurinn í sýningunni var olía, vatnslitir og krít og myndefnið aðallega hús, skip við bryggju og blóm.[8]

Haustið 1948 hóf Eiríkur nám við Rostrup Böyesens í Kaupmannahöfn ásamt vini sínum Benedikt Gunnarssyni en lauk því námi vorið 1950.[9] Haustið 1950 fóru hann og Benedikt til Parísar en komu aftur heim í byrjun sumars 1951.[10] Eftir dvölina í París ákváðu Eiríkur og Benedikt að fara í ferðalag, héldu þeir suður til Spánar og alla leið til Norður-Afríku. Á íslenskan mælikvarða þótti þetta ferðalag talsvert merkilegt og var mikið úr því gert.[11] Eftir dvölina úti hóf Eiríkur að mála abstraktmyndir. Þessi verk voru byggð á formum og flötum í hreinum litum. Síðan breyttist stíllinn og formin urðu frjálslegri.[12]

Upp úr 1960 voru málverk Eiríks yfirleitt stór og kraftmikil, máluð með breiðum penslum eða spöðum. Þannig túlkaði hann þau áhrif sem náttúran hafði á hann. Eiríkur hefur tekið listina um víðan völl og hefur Listferill hans verið fjölbreyttur. Eiríkur hefur gert tilraunir með abstraktlistir, meðal annars slettumyndir. Á áttunda áratugnum málaði hann myndir af fólki og landslagi af mikilli nákvæmni. Þar kom vel í ljós hvað hann er frábær teiknari.[13]

Ættfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Eiríkur kvæntist Ragnheiði Kristjánsdóttur (f. í Reykjavík 10. nóvember 1927) 10. september 1949 en þau skildu árið 1954. Árið 1957 kvæntist hann Bryndísi Sigurðardóttur (f. 16. júlí 1929, d. 10. desember 2016) og eignuðust þau saman börnin Sóleyju (f. 14. júní 1957 d. 29. nóvember 1994) og Smára (f. 11. apríl 1961).[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 9.
  2. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 9.
  3. „Eiríkur Smith 1925“[óvirkur tengill]
  4. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 10.
  5. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 11.
  6. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 12.
  7. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 14-15.
  8. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 17-18.
  9. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 19-22.
  10. Aðalbjörg María Ólafsdóttir.
  11. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 26-29.
  12. „Eiríkur Smith 1925“[óvirkur tengill]
  13. „Eiríkur Smith 1925“[óvirkur tengill]
  14. Aðalsteinn Ingólfsson (1982): 16, 37, 42-45.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.