Fara í innihald

EFTA-dómstóllinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá EFTA-dómstólinn)

EFTA-dómstóllinn er dómstóll með aðsetur í Lúxemborg sem starfar á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og hefur lögsögu yfir þeim þremur EFTA-ríkjum sem aðilar eru að Evrópska efnahagssvæðinu: Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Dómstóllinn fer með hliðstætt hlutverk og það sem Evrópudómstóllinn fer með innan Evrópusambandsins. Dómstólinn var stofnaður 1994 og hafði í upphafi aðsetur í Genf í Sviss en fluttist til Lúxemborgar árið 1996. Dómstólinn er skipaður þremur dómurum, einum frá hverju aðildarríki, og sex til vara. Dómarar eru skipaðir til sex ára í senn. Vinnumál dómsins er enska en einnig má beina erindum til hans á tungumálum aðildarríkjanna.

Saga og hlutverk

[breyta | breyta frumkóða]

Dómstóllinn hóf störf í janúar árið 1994. Þá störfuðu fimm dómarar við hann og 24 starfsmenn aðrir. Aðsetur dómstólsins var í Genf í Sviss. Eftir að aðildarríkjunum fækkaði í þrjú urðu dómarar þrír og aðrir starfsmenn 12 talsins. Haustið 1996 var aðsetur dómstólsins flutt til Lúxemborgar. Stjórn dómstólsins er í höndum nefndar þriggja sendiherra aðildarríkjanna hjá EFTA í Brussel. Réttarmálið er enska, en álitsgerðir eru einnig gefnar út á tungu þess ríkis sem málið varðar.

Verkefni dómstólsins hafa einskorðast við tvennt. Í fyrsta lagi og aðallega að veita ráðgefandi álit eftir beiðni dómstóla í aðildarríkjunum og í öðru lagi að fjalla um ágreiningsefni sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur átt aðild að með einhverju móti, stundum þannig að ESA hefur kært ríki fyrir dómstólnum.

Þau álitaefni, sem dómstóllinn fæst við, eru skýring á þeim reglum sem felast í EES-samningnum og fylgireglum hans. Frumsamningurinn er t.d. lög á Íslandi, en að auki hafa alls konar reglur verið settar, fyrst og fremst á grundvelli ýmissa tilskipana Evrópusambandsins.

Rekstur EFTA-dómstólsins kostar um 240 milljónir króna á ári. Noregur greiðir 89% kostnaðarins, Ísland 9% og Liechtenstein 2%.

EFTA-dómstóllinn og ESB

[breyta | breyta frumkóða]

Dómstólar Evrópusambandsins hafa ekki lögsögu í málum sem EFTA-ríkin eða þegnar þeirra eiga aðild að. Þessir dómstólar og EFTA-dómstóllinn eru líka mjög ólíkir í eðli sínu. EFTA-dómstóllinn hefur t.d. þrengra valdsvið en dómstólar ESB.

EFTA-dómstóllinn tekur engar ákvarðanir í álitsgerðum sínum, sem binda hendur aðildarríkjanna, líkt og dómstólar ESB gera. Álitsgerðunum hefur þó verið fylgt. Í málum sem varða Eftirlitsstofnun EFTA kveður EFTA-dómstóllinn upp bindandi dóma.

Dómsvald EFTA-dómstólsins tekur til eftirtalinna málaflokka:

Samningsbrotamál

[breyta | breyta frumkóða]

Samningsbrotamál eru höfðuð á hendur EFTA-ríki af hálfu eftirlitsstofnunar EFTA (ESE) eða annars EFTA-ríkis vegna meintra brota ríkisins gegn EES-samningnum ef ESE höfðar málið verður stofnunin fyrst að leggja fram rökstutt álit sitt og gefa aðildarríkinu færi á að svara áður en málinu er stefnt fyrir dóminn. Aðildarríkjunum er skylt að hlíta úrlausn EFTA-dómstólsins en dómar hans eru þó ekki beinlínis aðfararhæfir. Ólíkt Evrópudómstólnum hefur EFTA-dómstólinn heimild til þess að dæma aðildarríkin til sektargreiðsla.[1]

Ógildingarmál

[breyta | breyta frumkóða]

Ógildingarmál eru mál sem aðildarríki höfða gegn eftirlitsstofnuninni til þess að fá ákvörðunum stofnunarinnar hnekkt. Einungis er unnt að fella ákvörðun ESE úr gildi ef skilyrði 36. gr. ESE samningsins eru til staðar, þ.e. valdþurrð, brot á mikilsverðum formreglum, brot á EES eða ESE samningunum eða reglum sem varða beitingu þeirra, eða valdníðsla.[1]

Aðgerðarleysismál

[breyta | breyta frumkóða]

Aðgerðarleysismál eru mál sem aðildarríkin og einstakling og lögaðilar innan þeirra geta höfðað á hendur eftirlitsstofnuninni ef þeir telja að stofnunin hafi ekki gripið til viðeigandi aðgerða þegar henni hafi verið það skylt.[1]

Skaðabótamál

[breyta | breyta frumkóða]

Skaðabótamál má höfða fyrir EFTA-dómstólnum á hendur eftirlitsstofnuninni vegna tjóns sem starfsmenn hennar kunna að hafa valdið í störfum sínum ef tjónið má rekja til skaðabótaskylds atviks utan samninga.[1]

Ráðgefandi álit

[breyta | breyta frumkóða]

Dómstólar aðildarríkjanna geta kallað eftir ráðgefandi áliti dómstólsins um túlkun EES samningsins. Dómstólar aðildarríkjanna eru aldrei skyldir til þess að leita álits og þeir teljast ekki bundnir af því. EFTA-dómstólinn getur ekki veitt ráðgefandi álit um gildi ákvarðana sem stofnanir EFTA og EES hafa tekið.[1]

Bráðabirgðaúrræði

[breyta | breyta frumkóða]

Dómurinn hefur vald til þess að fresta til bráðabirgða framkvæmd gerðar á meðan mál er leitt til lykta fyrir honum eða að kveða á um nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir á meðan rekstri máls stendur.[1]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík, Bókaútgáfa Orators, 2000, bls. 278-282. ISBN 9979825243.