Du cidre pour les étoiles

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Du cidre pour les étoiles (íslenska: Eplavín fyrir geimverurnar) er 26. Svals og Vals-bókin og sú sjötta eftir Fournier. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1975 og kom út á bókarformi árið 1976. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Svalur og Valur halda á fund Sveppagreifans en komast að því að Sveppaborg er í hers höndum. Skepnur bændanna í héraðinu hegða sér undarlega og eru skiptar skoðanir um hvort fljúgandi furðuhlutum eða tilraunum greifans sé um að kenna. Í ljós kemur að greifinn hýsir hóp geimvera, les ksoriens frá fjarlægri plánetu. Með hjálp sérstaks búnaðar geta greifinn og geimverurnar talað saman, en að öðru leyti eru hljóð gestanna of há fyrir mannseyrað þótt önnur dýr nemi þau.

Geimverurnar eru sólgnar í eplavín og hnupla því frá bændum í nágrenninu. Í slíkum ránsleiðangri skýtur taugaveiklaður eplabóndi eina geimveruna og særir hana. Það verður til þess að erlendir leyniþjónustumenn sem voru að njósna um greifann komast yfir eitt geimskipanna.

Geimverurnar vilja endurheimta skipið, á sama tíma og reiðir íbúar Sveppaborgar hyggjast ráðast á setrið, þar sem þeir kenna greifanum um hina dularfullu atburði. Svalur og Valur yfirbuga erlendu njósnarana, ná geimskipinu og geimverurnar yfirgefa Jörðina í tæka tíð. Nokkrum mánuðum síðar fregna félagarnir þó að Sveppagrefinn hafi fest kaup á eplavínsgerð og taki reglulega á móti gestum utan úr geimnum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Þetta er fyrsta Svals og Vals-ævintýrið þar sem geimverur koma við sögu í hinum opinbera bókaflokki, en Rob-Vel hafði í árdaga sagnanna látið Sval fara út í geim og kynnast slíkum verum.
  • Sagan gerist að öllu leyti í Sveppaborg og nágrenni hennar.