Codex Sinaiticus
Codex Sinaiticus (Skammstafað א (Tischendorf), 01 (Gregory) eða δ2 (Von Soden)) er eitt af þremur elstu handritum sem til eru af biblíunni. Upphaflega hafa bæði Gamla og Nýja testamentið verið í handritinu, en nú vantar um það bil helminginn af Gamla testamentinu. Í handritinu eru einnig Apókrýf rit, og önnur biblíutengd rit, svo sem Bréf Barnabasar og Hirðirinn, eftir Hermas.[1]
Uppruni og textagildi
[breyta | breyta frumkóða]Handritið er skrifað með hástöfum á forngrísku um 350 e.Kr., stuttu eftir að kristni var gerð að ríkistrú í Rómaveldi. Ekki er vitað nákvæmlega hvar það var skrifað en Sesarea í Palestínu (Herbet Milne og T.C.Skeat) og Alexandría í Egyptalandi (Kirsopp Lake) eru þeir staðir sem helst koma til greina. Vitað er að handritið var leiðrétt í Sesareu á fimmtu eða sjöttu öld. Þegar arabar náðu borginni á sitt vald árið 638, varð því sennilega bjargað af flóttamönnum og síðan flutt til Katrínarklaustursins við Sínaífjall í Egyptalandi (á Sínaískaga).[1]
Handritið er ein af mikilvægustu heimildunum um hinn alexandríska gríska frumtexta Nýja testamentisins, sem er talinn vera sá sem stendur næst hinum eiginlega frumtexta. Handritið gegnir því mikilvægu hlutverki í útgáfu sameinuðu biblíufélaganna af frumtextanum (Textinn er þekktur sem UBS4 eða NA27).[2]
Saga handritsins
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1761 kom ítalskur ferðamaður, Vitaliano Donati, í Katrínarklaustrið á Sínaískaga, og fékk þá að sjá handrit þar, m.a. Codex Sinaiticus. Hann segir frá því í dagbók sinni, sem var þó ekki prentuð fyrr en 1879, eftir að handritið var komið til Vesturlanda.[3]
Handritið varð fyrst þekkt á Vesturlöndum 1844, þegar þýski fornfræðingurinn Constantin von Tischendorf fann það og komst yfir 43 blöð úr því. Hann fór með þau til Þýskalands og voru þau gefin Háskólabókasafninu í Leipzig. Tischendorf fór aftur í Katrínarklaustrið árið 1859, á vegum Alexanders 2. Rússakeisara, og fékk hann þá það sem eftir var af handritinu, 346½ blað. Var því komið fyrir í safni í Pétursborg.[4] Árið 1933 vantaði gjaldeyri í rússneska ríkiskassann og var sá hluti handritsins þá seldur Þjóðminjasafni Bretlands í London (nú í Þjóðbókasafni Bretlands – British Library). Árið 1975 fór fram viðgerð á Katrínarklaustrinu og fundust þá 12 blöð úr handritinu í lokuðu rými. Síðan hafa fundist leifar af 14 blöðum í bókbandi annarra handrita í klaustrinu.[5] Loks eru í Pétursborg leifar af 3 blöðum sem rússneski fræðimaðurinn Vladimir N. Beneshevich fann í bókbandi í klaustrinu á árunum 1907–1911.[6] Hlutar af handritinu eru því nú í fjórum löndum.
Þótt svo að Tischendorf hafi lengi verið talinn hetja fyrir að bjarga handritinu, hafa undanfarið komið fram greinar sem saka hann um að hafa náð því með brögðum. Ýmislegt virðist benda til þess að upprunaleg saga Tischendorfs, sem m.a. fólst í að munkarnir hafi ætlað að brenna handritið til að halda á sér hita, standist ekki.[7] Hafa fulltrúar klaustursins haldið því fram að hann hafi aðeins fengið handritið lánað til fræðilegra nota. Tilraunir til að fá handritinu skilað hafa ekki borið árangur.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Kurt und Barbara Aland, Der Text des Neuen Testaments. Einführung in die wissenschaftlichen Ausgaben sowie in Theorie und Praxis der modernen Textkritik, Deutsche Bibelgesellschaft, Stuttgart 1981, SS. 117-118. ISBN 3-438-06011-6.
- ↑ Metzger, Bruce M. (1992) The Text of the New Testament: Its Transmission Corruption, and Restoration Third, enlarged edition. New York & Oxford : Oxford University Press.
- ↑ Kirsopp Lake, (1911). Codex Sinaiticus Petropolitanus: The New Testament, the Epistle of Barnabas and the Shepherd of Hermas, Oxford: Clarendon Press, s. IV.
- ↑ Lake, Helen& Lake, Kirsopp (1911) Codex Sinaiticvs Petropolitanvs Oxford : Clarendon Press
- ↑ Skeat, T. C. "The Last Chapter in the History of the Codex Sinaiticus", Novum Testamentum XLII, 4, pp. 313-315.
- ↑ Бенешевич Владимир Николаевич, "Памятники Синая археологические и палеографические", Вып. 2, Sankt Petersburg, 1912; V. N. Beneshevich, "Catalogus Codicum Manuscriptorum Graecorum qui in Monasterio Sanctae Catherinae in Monte Sina Asservantur" St. Petersburg (1911).
- ↑ Bentley, James (1985) The Secrets of Mount Sinai: The story of the Codex Sinaiticus London : Orbis
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Codex Sinaiticus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. september 2010.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Gregory, C. R. (1900). Textkritik des Neuen Testaments (þýska). 1. árgangur. Leipzig. Sótt 18. mars 2010.
- Metzger, Bruce M. (1991). Manuscripts of the Greek Bible: An Introduction to Palaeography. Oxford: Oxford University Press. ISBN 978-0-19-502924-6.
- Metzger, Bruce M. (2005). The Text of the New Testament: Its Transmission, Corruption, and Restoration (enska). New York, Oxford: Oxford University Press.
- Endurútgáfa Sinaiticus' á stafrænu formi (en)
- Constantin von Tischendorf, Fragmentum Codicis Friderico-Augustani ex Iesaia et Ieremia in: Monumenta sacra inedita (Leipzig 1855), vol. I, pp. 211 ff.
- Codex Sinaiticus - Timarit.is