Clara Schumann
Clara Josephine Schumann (fædd Wieck; 13. september 1819 – 20. maí 1896) var þýskur píanóleikari, tónskáld og píanókennari. Hún var einn þekktasti píanóleikari rómantíska tímabilsins og átti yfir 60 ára feril þar sem hún fékkst við breitt svið verka, frá verkum sem sýndu framúrskarandi fingrafimi að alvarlegri tónverkum. Hún samdi einleiksverk fyrir píanó, píanókonsert (ópus 7), kammertónlist, kórverk og sönglög.
Hún ólst upp í Leipzig þar sem faðir hennar, Friedrich Wieck, var píanóleikari og kennari og móðir hennar, Mariane Bargiel, var píanóleikari, söngkona og píanókennari. Hún var undrabarn sem hlaut þjálfun hjá föður sínum og hóf að koma fram opinberlega frá 11 ára aldri. Hún hélt vel sótta tónleika í París og Vín, meðal annars. Hún giftist tónskáldinu Robert Schumann og átti með honum átta börn. Þau voru nánir vinir Johannes Brahms sem þau hvöttu áfram í tónsmíðum. Clara frumflutti mörg af verkum Brahms og eiginmanns síns opinberlega.
Eftir lát Roberts Schumann hélt hún áfram tónleikum í Evrópu í áratugi, oft með fiðluleikaranum Joseph Joachim og öðru kammertónlistarfólki. Frá 1878 var hún píanókennari Hoch-tónlistarskólans í Frankfurt, þar sem nemendur sóttu til hennar alls staðar að úr heiminum. Hún sá um útgáfu verka Roberts Schumann. Hún lést í Frankfurt, en var grafin í Bonn við hlið eiginmanns síns.
Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar um ævi Clöru Schumann, allt frá þýsku myndinni Träumerei frá 1944. Geliebte Clara eftir Helmu Sanders-Brahms kom út árið 2008. Mynd hennar, byggð á steinþrykksmynd eftir Anders Staub frá 1835, var á 100 marka seðlinum milli 1989 og 2002. Áhugi á verkum hennar fór vaxandi frá lokum 20. aldar og á 200 ára afmæli hennar árið 2019 komu út nokkrar bækur um hana.