Fara í innihald

Chianina

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Chianina-kvíga er gefin sem verðlaun í calcio storico í Flórens.

Chianina er nautgripakyn sem á uppruna sinn á Mið-Ítalíu í héruðunum Toskana, Úmbríu og Marke. Það er kennt við Val di Chiana. Kynið er mjög fornt og er meðal annars nefnt í ritum Pliniusar eldra. Chianina-nautgripir eru mjög stórir (nautin ná allt að 1,7 metrum á herðakamb) með svart skinn og hvít eða gráhvít hár. Fullorðin naut verða allt að 1700 kíló að þyngd.

Chianina-nautgripir eru oftast hafðir á fóðrum heima við. Þeir hafa gott skap og voru upphaflega fyrst og fremst ræktaðir sem vinnudýr. Þeir eru oft hafðir sýnilegir við hátíðleg tækifæri, t.d. notaðir sem dráttardýr í athöfninni scoppio del carro á páskadag í Flórens og chianina-kvíga er gefin sem fyrstu verðlaun í calcio fiorentino.

Chianina-nautgripir eru nú aðallega ræktaðir vegna kjötsins sem er mjög bragðgott og meyrt, en hættir við að verða seigt, t.d. við ofeldun eða frystingu. Bistecca fiorentina er aldrei gerð úr öðru kjöti. Chianina-nautgripir vaxa hratt, þola mikla hita og hafa mikið þol gegn sjúkdómum. Vegna þessara eiginleika eru þeir notaðir til kynbóta í hitabeltinu í Afríku.