Caroline Herschel
Caroline Lucretia Herschel (16. mars 1750 – 9. janúar 1848) var þýskur stjörnufræðingur sem er þekktust fyrir að hafa uppgötvað fjölda halastjarna, þar á meðal halastjörnuna 35P/Herschel-Rigollet sem ber nafn hennar.[1] Hún var yngri systir stjörnufræðingsins William Herschel.
Caroline fæddist í Hanover. Hún veiktist af taugaveiki þegar hún var tíu ára sem stöðvaði líkamsvöxt hennar, svo hún náði aðeins 1,30 m hæð. Vegna þessa fékk hún aðeins kennslu í hússtjórnarstörfum því foreldrar hennar töldu að hún myndi aldrei giftast. Hún flutti til bræðra sinna í Bath á Englandi árið 1772 og tók að sér heimilisrekstur fyrir William sem starfaði við tónlist. William fékk áhuga á stjörnufræði og hóf að smíða eigin stjörnukíkja. Caroline gerðist skrásetjari hans og betrumbætti kerfið sem var notað til að flokka geimfyrirbæri auk þess að uppgötva sjálf ný fyrirbæri. William var skipaður hirðstjörnufræðingur Georgs 3. árið 1782 og þau fluttu frá Bath til Datchet. Árið eftir smíðaði William sérstakan stjörnukíki fyrir Caroline sem ætlaður var til að finna halastjörnur. Hún tilkynnti uppgötvanir sínar með bréfum til Joseph Banks, forseta Konunglega breska vísindafélagsins. Frá árinu 1787 fékk hún regluleg laun frá konungi, 50 sterlingspund á ári, fyrir vísindastörf sín. Árið 1802 var listi hennar yfir 500 nýjar stjörnuþokur og stjörnuþyrpingar gefinn út og bættist við þau 2.000 geimfyrirbæri sem þá voru þekkt. Flokkunarkerfið sem hún notaði varð grunnur að því sem síðar varð New General Catalogue yfir geimfyrirbæri. Hún flutti aftur til Hanover eftir að William dó 1822, en átti áfram í miklum samskiptum við bróðurson sinn, John Herschel. Hún hélt áfram stjörnuskoðun til 1824 og var virk og við góða heilsu allt til æviloka.
Hún var fyrsta konan sem fékk laun frá konungi sem raunvísindamaður.[2] Hún var líka fyrsta konan á Englandi sem gegndi opinberri stöðu.[3] Hún var auk þess fyrsta konan sem fékk birta grein í tímaritinu Philosophical Transactions,[4] sem hlaut gullmerki Konunglega stjörnufræðifélagsins (1828) og var gerð að heiðursfélaga í Konunglega stjörnufræðifélaginu (1835, ásamt Mary Somerville). Hún var líka gerð að heiðursfélaga í Konunglegu írsku vísindaakademíunni (1838). Friðrik Vilhjálmur 4. Prússakonungur veitti henni gullmerki í vísindum á 96 ára afmæli hennar 1846.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Nysewander, Melissa. Caroline Herschel. Biographies of Women Mathematicians, Atlanta: Agnes Scott College, 1998.
- ↑ Brock, Claire (2004). „Public Experiments“. History Workshop Journal. Oxford University Press. 58 (58): 306–312. doi:10.1093/hwj/58.1.306. JSTOR 25472768. S2CID 201783390.
- ↑ Ogilvie, Marilyn Bailey (1986). Women in Science: Antiquity through the Nineteenth Century. MIT Press. bls. 97–98. ISBN 978-0-262-65038-0.
- ↑ Schiebinger, Londa (1989). The mind has no sex?: women in the origins of modern science. Cambridge, Mass.: Harvard University Press. bls. 263.
- ↑ Herschel, Caroline Lucretia (1876). Herschel, Mrs. John (ritstjóri). Memoir and Correspondence of Caroline Herschel. London: John Murray, Albemarle Street.