Breska Gvæjana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Bresku Gvæjana frá 1908.

Breska Gvæjana (enska: British Guiana) var bresk nýlenda á norðurströnd meginlands Suður-Ameríku frá 1831 þar til hún fékk sjálfstæði sem Gvæjana árið 1966.

Hollendingar stofnuðu nýlendurnar Berbice og Essequibo snemma á 17. öld. Á 18. öld bættist Demerara við. Bretar lögðu þessar nýlendur undir sig 1796 þegar Frakkar höfðu hernumið Holland. Batavíulýðveldið endurheimti yfirráð yfir þeim 1805 en Bretar hernámu þær aftur í Napóleonsstyrjöldunum 1809. Bretar fengu formlega yfirráð yfir nýlendunum í friðarsamningum 1814 og sameinuðu þær í eina nýlendu 1831. Höfuðstaður nýlendunnar var Georgetown (Stabroek til 1812).

Bretar byggðu upp sykurplantekrur í nýlendunni, meðal annars með þrælum frá Afríku. Þrælar gerðu uppreisn í Demerarauppreisninni 1823. Þrælahald var formlega lagt niður innan Breska heimsveldisins 1833. Breska fyrirtækið Booker Group (sem Booker-verðlaunin eru kennd við) varð fyrirferðarmikið í sykurframleiðslu í nýlendunni og átti nær allar plantekrurnar undir lok 19. aldar.

Árið 1928 var nýlendan gerð að krúnunýlendu með nýja stjórnarskrá. Löggjafarráð var stofnað og landstjóri fékk aukin völd. Umbætur næstu ár færðu aukið vald til löggjafarþingsins sem varð að meginhluta kjörþing. Flokkurinn People's Progressive Party vann stórsigur í kosningum 1953 en bresk stjórnvöld töldu hann of hallan undir kommúnisma. Í kjölfarið var stjórnarskrá landsins felld úr gildi og Bretar sendu her til nýlendunnar. Bráðabirgðastjórn var í landinu til 1957. Það ár vann PPP aftur meirihluta í kosningum. Árið 1961 fékk landið heimastjórn og 1966 fékk það sjálfstæði.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.