Brain Police
Brain Police | |
---|---|
Uppruni | Reykjavík, Íslandi |
Ár | 1998 – 2010, 2011 - |
Stefnur | eyðimerkurokk, Stóner rokk |
Útgáfufyrirtæki | Sena, Dennis, Gimsteinn |
Fyrri meðlimir | Jens Ólafsson Jón Björn Ríkarðsson Gunnlaugur Lárusson Hörður Stefánsson |
Brain Police er íslensk stóner rokkhljómsveit. Hljómsveitin var stofnuð 12. nóvember 1998 af þeim Jóni Birni Ríkarðssyni, Herði Stefánssyni, Gunnlaugi Lárussyni og Vagni Leví Sigurðssyni. Nafn sveitarinnar, Brain Police, er komið frá Frank Zappa en á fyrstu plötu Zappa er lag sem heitir Who are the Brain police, og nafn sveitarinnar dregur nafn sitt af laginu.[1]
Fyrsta plata sveitarinnar, Glacier Sun, var gefin út árið 2000. Platan var gefin út á netinu og voru Brain Police taldir frumkvöðlar fyrir það afrek. Í dómi Morgunblaðsins um plötuna segir: „Ég geri mér í hugarlund að strákarnir hafi vísvitandi ætlað að hafa hljóminn svona þykkan, drullugan og skítugan en þessi tilætlan þeirra verður hins vegar til þess að hann verður fremur máttlítill.“[2]. Sama ár tók hljómsveitin upp lagið Crash and burn fyrir kvikmyndina Óskabörn þjóðarinnar.[3] Eftir þessa upptöku hætti upphaflegi söngvari hljómsveitarinnar, Vagn Leví.
Brain Police byrjaði að leika án söngs á meðan að þeir leituðu að nýjum söngvara. Söngleysið varð til þess að hljómsveitin hætti um tíma en fann hún að lokum söngvara, í vini á vínylkvöldi hljómsveitarinnar, á Akureyri. Maðurinn sem fyllti í skarðið hét Jens Ólafsson og honum var í kjölfarið boðið að verða söngvari hljómsveitarinnar.[1]
Árið 2002 gaf Brain Police út þriggja laga kynningarplötuna Master Brain. Í umsögn Morgunblaðsins um smáskífuna segir: „fengur að Jens Ólafssyni söngvara sem bættist í hópinn fyrir skömmu en áður var hann í hinni norðlensku Toy Machine. Tilkoma hans hefur verið sem vítamínsprauta á sveitina“.[4] Í kjölfarið, einu ári eftir útgáfu kynningarplötunar fékk hljómsveitin nokkur verðlaun í tónlistarverðlaunum, útvarpstöðvarinnar Radíó X og tímaritsins Undirtóna. Brain Police voru valdir með björtustu vonina, lag ársins og söngvara ársins.[5] Sama ár, fékk hljómsveitin tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir hljómplötu ársins.[6]
Stuttu eftir það skrifaði hljómsveitin undir samning við Eddu útgáfu. Hljómsveitin stefndi aftur í hljóðver til að gefa út plötu undir merkjum Hitt, sem er undirmerki Eddu.[7]Platan hét einfaldlega Brain Police og var hún gefin út í október árið 2003. Í inngangstefi plötunnar segir: „Læsið dætur ykkar inni. Brain Police eru mættir!“.[8]
Ári síðar gáfu Brain Police út þriðju plötu sína, Electric Fungus. Á þriðju plötunni er að finna heimildarmynd um gerð plötunnar og myndband við lagið Coed Fever.[9]
Seinasta plata Brain Police var gefin út tveimur árum síðar, árið 2006. Á plötunni voru tveir svíar við upptökustjórn, þeir Stefan Boman og Chips K. Platan, sem heitir Beyond the Wasteland var gefin út október árið 2004 af Skífunni. Útvarpsþátturinn Poppland á Rás 2 valdi þessa fjórðu plötu Brain Police sem plötu vikunnar þann 18. september 2006.[10] Árið 2007 var svo hljómsveitin á ferðinni á íslensku tónlistarhátíðinni, Icelandic Airwaves.[11]
31. maí 2010 gáfu Brain Police menn út þá tilkynningu á facebook-síðu sinni að þeir hefðu ákveðið að hætta ótímabundið.[12]
En 31. janúar 2011 tilkynntu Brain Police að þeir væru komnir saman aftur og þeir myndu spila á Eistnaflugi það árið en það yrðu þó sennilega einu tónleikar þeirra 2011.[13]
2012 spiluðu þeir á tveimur erlendum tónlistarhátíðum, Desertfest og Hellfest.
Hljómsveitin hefur upp frá því komið stundum saman t.d. á Eistnaflugi og til að mynda árið 2019 á Hard Rock, Lækjargötu.
Útgefin verk
[breyta | breyta frumkóða]Breiðskífur
[breyta | breyta frumkóða]- Glacier Sun (2000)
- Brain Police (2003)
- Electric Fungus (2005)
- Beyond The Wasteland (2006)
Smáskífur
[breyta | breyta frumkóða]- Master Brain (2002)
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Jarðundnir og skemmtilegir rokkarar“. Heimur.is - tímaritið Ský. Sótt 28. ágúst 2010.[óvirkur tengill]
- ↑ „Þetta var bara vagg og velta“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „The toypage - Discography“. Dordingull. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Áfram eyðimörkina“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Tónlistarverðlaun Radio X og Undirtónar“. Harðkjarni. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Brain Police og Björgin meðal tilnefndra til tónlistarverðlauna“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Brain Police undiritar samning við Eddu útgáfu“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Átján hjóla trukkur og tengivagn“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Þriðja vaktin“. Morgunblaðið. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Poppland - Plötudómur“. Rás 2 - Poppland. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2010. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Airwaves: Fimmtudagsdómar“. Rjóminn.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. ágúst 2010. Sótt 28. ágúst 2010.
- ↑ „Brain Police - Facebook“.
- ↑ „Brain Police - Facebook“.