Bríet Héðinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bríet Héðinsdóttir (14. október 1935 - 26. október 1996) var íslensk leikkona og leikstjóri.

Bríet ólst upp í Reykjavík og foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Pálína Pálsdóttir söngkennari og Héðinn Valdimarsson alþingismaður, verkalýðsfrömuður og forstjóri. Föðuramma Bríetar og nafna var kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Bríet átti þrjár dætur: Laufeyju Sigurðadóttur fiðluleikara, Guðrúnu Theódóru Sigurðardóttur sellóleikara og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu.

Bríet lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1954, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, nám í enskum og þýskum bókmenntum og leiklist í Vín og útskrifaðist sem leikkona frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1962.

Bríet var fastráðin leikkona við Þjóðleikhúsið frá 1966 og til dauðadags. Hún lék fjölda hlutverka í Þjóðleikhúsinu auk þess sem hún leikstýrði og samdi leikgerðir. Árið 1988 sendi Bríet frá sér bókina Strá í hreiðrið en hún er byggð á bréfasafni ömmu hennar, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.[1]

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Merkir Íslendingar - Bríet Bjarnhéðinsdóttir“, Morgunblaðið 14. október 2014 (skoðað 29. ágúst 2019)