Fara í innihald

Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn – eða Fræðafélagið – var stofnað árið 1912 af nokkrum Íslendingum sem búsettir voru í Kaupmannahöfn. Félagið er enn starfandi. Markmið félagsins var að „styðja og styrkja íslensk vísindi og bókmenntir með útgáfu gamalla og nýrra rita, er snerta sögu landsins og náttúru, íslenskar bókmenntir og þjóðfræði“. Hið íslenska fræðafélag varð 100 ára vorið 2012.

Stofnun félagsins og starfsemi til 1960[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1906 hófst barátta fyrir því að flytja Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags heim til Íslands; niðurstaðan varð sú að Hafnardeildin var lögð niður árið 1911. Kaupmannahafnardeildin hafði lengst af verið mun öflugri en Reykjavíkurdeildin, enda hafði miðstöð íslenskrar fræðastarfsemi verið þar ytra. Þetta varð til þess að sú hugmynd kviknaði meðal Hafnar-Íslendinga að stofna sjálfstætt íslenskt bókmenntafélag í Kaupmannahöfn til þess að gefa út rit sem sérstaklega voru ætluð Íslendingum. Bogi Th. Melsteð lét þessa hugmynd fyrst í ljósi opinberlega.

Eftir nokkurn undirbúning var boðað til stofnfundar 11. maí 1912, og var Bogi Th. Melsteð kosinn forseti, Sigfús Blöndal skrifari og Finnur Jónsson féhirðir. Af öðrum sem stóðu að félaginu má nefna Þorvald Thoroddsen og Kristian Kaalund. Félagsmenn máttu „eigi vera fleiri en 12, og skulu þeir kosnir að verðleikum“. Forsetar félagsins hafa verið:

Félagið hóf strax öfluga starfsemi og komu fyrstu bækurnar út haustið 1912. Var starfsemi félagsins nokkuð samfelld fram yfir 1960, en þá kom hlé. Félagið hefur þó gefið út bækur eða styrkt útgáfu rita fram til þessa dags.

Bogi Th. Melsteð var vakinn og sofinn yfir starfsemi félagsins meðan hans naut við, og var útsjónarsamur að afla styrkja til starfseminnar. Einnig má geta þess að Kristian Kaalund arfleiddi Fræðafélagið að öllum eigum sínum (1919), og Þorvaldur Thoroddsen gaf félaginu upplagið af Ferðabók sinni, 1–4, sem hann kostaði sjálfur útgáfu á. Varð fjárhagur félagsins með tímanum allgóður.

Á árunum 1916–1930 kom út Ársrit Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn, alls 11 árgangar. Í því voru læsilegar og fróðlegar greinar.

Í 25 ára afmælisriti félagsins er yfirlit um útgáfustarfsemina á því tímabili, en félagið hafði þá gefið út 44 bækur. Nefna má ritraðirnar: Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga, sem varð 14 bindi, og Íslensk rit síðari alda, sem varð 7+2 bindi. Félagið hefur gefið út fjölda áhugaverðra bóka, má t.d. nefna Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen (1916–17), og Ævisögu Árna Magnússonar eftir Finn Jónsson (1930).

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns[breyta | breyta frumkóða]

Langstærsta verkefni félagsins fyrstu áratugina var útgáfan á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem kom út í 11 bindum á árunum 1913–1943. Þetta var metnaðarfull útgáfa á merku heimildarriti. Jarðabókin nær ekki yfir allt landið, því að jarðabókin yfir Múlasýslur og Skaftafellssýslur brann í Kaupmannahöfn 1728.

 • 1. bindi: Vestmannaeyja- og Rangárvallasýsla, Kmh. 1913–1917. — Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar. Sjóður Hielmstierne-Rosencrone greifa styrkti útgáfuna á fyrsta bindi.
 • 2. bindi: Árnessýsla, Kmh. 1918–1921. — Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar.
 • 3. bindi: Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kmh. 1923–1924. — Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar.
 • 4. bindi: Borgarfjarðar- og Mýrasýsla, Kmh. 1925–1927. — Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar.
 • 5. bindi: Hnappadals- og Snæfellsnessýsla, Kmh. 1931–1933. — Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar.
 • 6. bindi: Dala- og Barðastrandarsýsla, Kmh. 1938. — Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar.
 • 7. bindi: Ísafjarðar- og Strandasýsla, Kmh. 1940. — Jakob Benediktsson bjó til prentunar.
 • 8. bindi: Húnavatnssýsla, Kmh. 1926. — Bogi Th. Melsteð bjó til prentunar.
 • 9. bindi: Skagafjarðarsýsla, Kmh. 1930. — Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar.
 • 10. bindi: Eyjafjarðarsýsla, Kmh. 1943. Ljóspr. 1945. — Jakob Benediktsson bjó til prentunar.
 • 11. bindi: Þingeyjarsýsla, Kmh. 1943. — Jakob Benediktsson bjó til prentunar.

Nær allt upplagið af 10. bindinu brann í Kaupmannahöfn 1943, en bókin var ljósprentuð tveimur árum síðar.

Á árunum 1980–1988 lét Fræðafélagið ljósprenta alla Jarðabókina, og gaf hana út innbundna. Um leið var ákveðið að bæta við þremur bindum:

 • 12. bindi: Atriðisorðaskrá, Kmh. 1990, 115 s. — Umsjón: Gunnar F. Guðmundsson.
 • 13. bindi: Fylgiskjöl, Kmh. 1990, 15+622 s. — Gunnar F. Guðmundsson gaf út.
 • Aukabindi: Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, Kmh. 1993, 70+359 s. — Gunnar F. Guðmundsson tók saman og ritaði 60 bls. inngang um Jarðabókina.

Starfsemi síðustu árin[breyta | breyta frumkóða]

Á síðustu árum hefur Pétur M. Jónasson líffræðingur verið í forsvari fyrir félagið, og hefur útgáfan að mestu leyti snúist um Jarðabókina og náttúru Íslands (Mývatn og Þingvallavatn).

 • Aðalgeir Kristjánsson (útg.): Brynjólfur Pétursson: Bréf, Kaupmannahöfn 1964.
 • Jón Helgason (útg.): Gamall kveðskapur, Kaupmannahöfn 1979. — Íslensk rit síðari alda, 7.
 • Pétur M. Jónasson (ritstj.): Ecology of eutrophic, subarctic Lake Mývatn and the River Laxá, Copenhagen 1979, 308 s. — Sérútgáfa, birtist einnig í tímaritinu OIKOS, 32:1–2, (1979).
 • Jón Helgason (útg.): Bjarni Thorarensen. Bréf 1–2, Kmh. 1986, 315 og 32+461 s. — Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga 13–14. Fyrra bindið kom fyrst út 1943. Agnete Loth lauk við seinna bindið.
 • Pétur M. Jónasson (ritstj.): Ecology of oligotrophic, subarctic Thingvallavatn, Copenhagen 1992, 437 s. — Sérútgáfa, birtist einnig í tímaritinu OIKOS, 64:1–2, (1992).
Bækur sem Fræðafélagið hefur styrkt útgáfu á
 • Jón Helgason: Málið á Nýjatestamenti Odds Gottskálkssonar, 2. útgáfa, Reykjavík, Málvísindastofnun Háskóla Íslands 1999. — Safn Fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga 7. Fyrsta útgáfa 1929.
 • Hrafn Sveinbjarnarson: Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn í 107 ár. Nokkrir sögukaflar og skrá yfir skjöl félagsins, Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn 2000. Fræðafélagið styrkti útgáfuna.
 • Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson (ritstj.): Þingvallavatn, undraheimur í mótun., Reykjavík, Mál og menning 2002, 303 s. — Fræðafélagið var meðal styrktaraðila. 2. prentun 2007.
 • Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson (ritstj.): Thingvallavatn, a unique world evolving. A World Heritage Site, Reykjavík, Opna 2011, 326 s. — Að hluta endursamin og aukin. Fræðafélagið var meðal styrktaraðila.
 • Jón Þ. Þór: Bogi Th. Melsteð, ævisaga hugsjónamanns, Hafnarfirði, Urður 2015, 333 s. — Fræðafélagið kom að útgáfunni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Jakob Benediktsson: Hið íslenzka fræðafélag 1912–1937, Kaupmannahöfn 1937.
 • Ýmis rit félagsins.