Fara í innihald

Black Lives Matter

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Black Lives Matter
SkammstöfunBLM
Stofnun13. júlí 2013
MarkmiðMarkmið hreyfingarinnar er að vekja athygli á því að blökkumenn verða oftar fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar í Bandaríkjunum og almennri mismunun en aðrir þjóðfélagshópar. Berst hreyfingin fyrir kerfisbundnum breytingum sem koma í veg fyrir þessa mismunun.
LykilmennPatrisse Cullors, Alicia Garza og Opal Tometi
Vefsíðawww.blacklivesmatter.com

Black Lives Matter hreyfingin (BLM) er grasrótarhreyfing sem á uppruna sinn að rekja til Bandaríkjanna og hefur hún m.a. barist gegn harðræði lögregluþjóna og kynþáttafordómum í garð þeldökkra í landinu. Þrátt fyrir að hafa aðeins verið stofnuð árið 2013 hefur hreyfingin dreift sér um allan heim og mótmæli átt sér stað víðsvegar undir nafni hreyfingarinnar þar sem ofbeldi lögreglumanna og kerfisbundnum rasisma er mótmælt.[1]

Black Lives Matter hreyfingin á margt sameiginlegt við Black Power hreyfinguna sem kom fram á 7. áratug síðustu aldar en sú síðarnefnda barðist einnig fyrir kerfisbundnum breytingum með því að nota herskáar aðgerðir til þess að bjóða pólitískum og mennta-, menningar- og efnahagslegum stofnunum birginn. Black Power hreyfingin var ein mikilvægasta samfélags-, stjórnmálalega- og menningarlega fjöldahreyfing 20. aldar en áhrifa hennar, líkt og BLM hreyfingarinnar, gætti með einum eða öðrum hætti í öllum heimshlutum.[2]

Myllumerkið #BlackLivesMatter var fyrst notað árið 2013 af Patrisse Cullors, Alicia Garza og Opal Tometi vegna ákvörðunar dómstóls í Flórída að sýkna George Zimmerman eftir að hann skaut Trayvon Martin, 17 ára þeldökkan strák sem var úti að labba í hverfi Zimmermann, til bana. Árið 2014, eftir að bæði Michael Brown og Eric Garner létu lífið við handtökur lögregluþjóna sem voru, líkt og Zimmerman, einnig sýknaðir af öllum ákærum óx hreyfingin Black Lives Matter út frá myllumerkinu.[3] Í kjölfar dómsúrskurðarins í máli Michael Brown brutust út óeirðir í Ferguson í Missouri fylki, þar sem kveikt var í húsum og verslunum, og beitti óeirðarlögregla táragasi gegn mótmælendum.[4]

Morðið á George Floyd

[breyta | breyta frumkóða]

Á undanförnum árum hafa tugir þeldökkra Bandaríkjamanna látið lífið við svipaðar aðstæður og Brown og Garner með tilheyrandi mótmælum hjá almenningi en viðbrögð fólks komust ekki í hálfkvisti við þau mótmæli sem urðu eftir dauða George Floyd, 46 ára blökkumanns, þann 25. maí árið 2020 í Minneapolis. Myndband náðist af lögreglumanninum Derek Chauvin þrýsta fæti sínum niður á háls Floyd við handtöku og halda honum þannig í alls 8 mínútur og 46 sekúndur, þrátt fyrir beiðni Floyd, sem sagðist ekki ná andanum, um að honum yrði sleppt.[5] Eftir að myndbandsupptöku af handtökunni var dreift á samfélagsmiðlum braust út hörð alda mótmæla um öll Bandaríkin.

Fyrstu mótmælin voru skipulögð í Minneapolis og St Paul í Minnesota, en dreifðust fljótt til annarra borga í Bandaríkjunum. Mótmælin, sem stóðu allt sumarið og fram á haustið 2020 voru undir formerkjum Black Lives Matter, og eru stærstu fjöldamótmæli í sögu Bandaríkjanna. Kannanir sýna að 15-26 milljón Bandaríkjamenn tóku þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi sumarið 2020.

Vegna þrýstings frá mótmælendum voru þrír lögreglumenn ákærðir fyrir að hafa aðstoðað eða stuðlað að morðinu á Floyd.[6] Derek Chauvin hafði verið ákærður fyrir morð af þriðju gráðu og manndráp af annarri gráðu vegna andlát Floyd en vegna mikilla mótmæla var Chauvin einnig ákærður fyrir morð af annarri gráðu. Réttarhöldin yfir fjórmenningunum hefjast 8. mars 2021.[7]

BLM mótmælum sumarsins 2020 hefur verið lýst sem kaflaskilum í viðhorfum Bandaríkjamanna til lögregluofbeldis og samskipta kynþáttanna.[8]

Áhrif á stjórnmál og samfélagsumræðu

[breyta | breyta frumkóða]

Þó yfirgnæfandi meirihluti Black Lives Matter mótmæla gegn lögregluofbeldi sumarið 2020 hafi verið friðsöm brutust út óeirðir í mörgum borgum þar sem lögreglu og mótmælendum lenti saman.

Samtökin hafa verið gagnrýnd fyrir að gera lítið úr mikilvægi lögreglu og lífi lögreglumanna, eða hvítra Bandaríkjamanna sem margir vilja meina að séu einnig fórnarlömb ofbeldis og morða. Andstæðingar BLM hafa í því sambandi haldið á lofti slagorðinu All Lives Matter. Black Lives Matter hreyfingin hefur einnig verið gagnrýnd mikið af núverandi forseta Bandaríkjanna Donald Trump en hann telur hreyfinguna vera tákn haturs sem sé fjármögnuð af frjálslyndum auðkýfingum og berjist fyrir því að leggja niður lögregluna, fangelsi, landamæraeftirliti, kapítalisma og vali á skólaefni.[9]

BLM hreyfingin hefur staðið fyrir mörgum mótmælum gegn sitjandi forseta og í valdatíð Trump hefur hreyfingin orðið æ meira pólitísk, m.a. með því að hvetja þeldökka kjósendur til að kjósa hann úr embætti. Þeldökkir kjósendur gegndu stóru hlutverki í að snúa fylkjum sem Donald Trump vann í forsetakosningunum árið 2016 gegn Hillary Clinton. Þeirra á meðal voru Georgía og Wisconsin en Joe Biden vann nauman sigur í báðum fylkjum.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. What You need to know about Black Lives Matter in 10 questions, Chicago Tribune. Skoðað 12. nóvember 2020.
  2. Joseph E. Peniel, “Reinterpreting the Black Power Movement,” OAH Magazine of History, vol 22, útgáfa 3. 2008, bls. 4.
  3. https://library.law.howard.edu/civilrightshistory/BLM Black Lives Matter Movement], Howard University Law Library. Skoðað 13. nóvember 2020.
  4. Óeirðir í Ferguson, Ríkisútvarpið. Skoðað 13. nóvember 2020.
  5. Fátt breytt eftir eitt mesta mótmælasumar sögunnar, Ríkisútvarpið. Skoðað 14. nóvember 2020.
  6. The charges against 4 officers involved in George Floyd’s death, explained, CNN. Skoðað 15. nóvember 2020.
  7. Herða ákærur á hendur lögreglumanninum sem kraup á hálsi Floyd, Vísir. Skoðað 15. nóvember 2020.
  8. „Support for Black Lives Matter has decreased since June but remains strong among Black Americans“. Pew Research Center (bandarísk enska). Sótt 22. nóvember 2020.
  9. Trump Says the Black Lives Matter Movement is Destroying Many Black Lives, Newsweek. Skoðað 16. nóvember 2020.
  10. How Black voters and simmering protests contributed to Trump’s loss, CNN. Skoðað 17. nóvember 2020.