Blýárin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Veggmálverk í Mílanó til minningar um Fausto Tinelli og Iaio Iannucci sem voru myrtir af hægriöfgamönnum 18. mars 1978

Blýárin (ítalska: Anni di piombo) er heiti á 8. áratug 20. aldar í sögu Ítalíu og vísar til þess að á þeim tíma voru tíð hryðjuverk og vopnuð barátta á vegum róttækra stjórnmálahreyfinga bæði til hægri og vinstri. Nafnið er dregið af samnefndri kvikmynd Margarethe von Trotta frá 1981 sem fjallar um hliðstæða atburði í Vestur-Þýskalandi.

Upphaf blýáranna er stundum talið vera stúdentaóeirðirnar 1968 en stundum blóðbaðið á Piazza Fontana 12. desember 1969. Síðasta tilræðið sem er kennt við þennan tíma er blóðbaðið í Bologna 2. ágúst 1980. Ýmsir hópar tengdust þessum tilræðum beint eða óbeint, þar á meðal stjórnmálahreyfingar utan þings eins og Lotta Continua og Movimento Studentesco til vinstri og Centro Studi Ordine Nuovo til hægri, og hryðjuverkahópar á borð við Brigate Rosse og Prima Linea til vinstri og Nuclei Armati Rivoluzionari, Ordine Nero og Terza Posizione til hægri.