Bjarni Runólfsson
Bjarni Runólfsson (10. apríl 1891 – 4. september 1938) var bóndi og rafstöðvasmiður í Hólmi í Landbroti.
Foreldrar Bjarna voru Runólfur Bjarnason (1863 – 1949) og kona hans, Rannveig Bjarnadóttir (1857 – 1949). Þau bjuggu í Hólmi, og Bjarni var elsta barn þeirra. Hann tók við búi af þeim 1920 og bjó á jörðinni til dauðadags. Hann gekk 18. september 1921 að eiga Valgerði Helgadóttur (1896 – 1981).
Bjarni var sjálfmenntaður en reisti á árununum 1927 – 1937 alls 101 rafstöð í ellefu sýslum landsins, auk þess að smíða túrbínur fyrir aðra rafvirkja. Hann átti verulegan þátt í rafvæðingu til sveita, oft með því að virkja bæjarlæki en stundum stærri vatnsföll, með fallhæð allt að 100 metrum. Þegar til féll, smíðaði hann úr því járni, sem fékkst úr strönduðum skipum og var venjulega selt á uppboði. Eftir að Bjarni féll frá, héldu samverkamenn hans, Eiríkur og Sigurjón Björnssynir frá Svínadal í Skaftártungu, áfram að virkja á líkan hátt.
Bjarni húsaði bæ sinn myndarlega nálægt 1930. Hann keypti 1926 nýjan Ford T vörubíl, þótt akvegir væru litlir í þessum sveitum. Það var fyrsti bíll í Skaftafellssýslum (númerið SF 1, sem síðar breyttist í Z 1). Hann reisti klakstöð fyrir silung, sleppti í nokkur ár 100.000 – 300.000 seiðum í Skaftá og fékkst talsvert við veiðiskap, auk þess að gera aldursrannsóknir á hreistri. Hann byggði í Hólmi frystihús með tveimur frystiklefum og vélaklefa og smíðaði sjálfur spírala og annað, sem til þurfti. Þar nálægt reisti hann sláturhús. Hægt var að frysta 200 skrokka á sólarhring, sem síðan var ekið með til Reykjavíkur. Bjarni var í þann mund að stækka frystihúsið, svo að hægt yrði að frysta 600 skrokka á sólarhring, þegar hann fékk slag og dó. Einnig áformaði hann að smíða fleiri rafstöðvar.
Bjarni var formaður í Framsóknarfélagi Vestur-Skaftafellssýslu og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins. Hann starfaði fyrir Búnaðarfélag Íslands.
Í Hólmi er enn varðveitt smiðja Bjarna með verkfærum öllum, sem hann smíðaði sum sjálfur, og sömuleiðis rafstöð hans niðri við Rásina í Skaftá. Þjóðminjasafn á aðild að varðveislunni. Einnig eru munir úr búi Bjarna og Valgerðar í safninu í Skógum. Þau fengu leg í heimagrafreit í Hólmi.
Árið 1926 var Bjarni búinn að setja upp rafveitur á þessum stöðum:
- Hólmi í Landbroti.
- Svínadal í Skaftártungu.
- Breiðabólsstaö á Síðu.
- Blómsturvöllum í Fljótshverfi.
- Skaftafelli í öræfum.
- Svínafelli í öræfum.
- Þykkvabæ í Landbroti.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Bjarni Runólfsson – Hólmi – Minningarrit, Reykjavík 1944.
- Björn Magnússon: Vestur-Skaftfellingar 1, bls. 143, Reykjavík 1970.
- Helgi Lárusson: „Bjarni Runólfsson í Hólmi", Heimskringla í Winnipeg 28. september 1938.
- Jónas Jónsson: Merkir samtíðarmenn, 2. útgáfa, bls. 259 – 267, Akureyri 1960.
- Morgunblaðið 12. janúar 2004: „Smíðaskólinn í Hólmi og heimarafstöðvarnar".
- Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár I, bls. 189 – 190, Reykjavík 1948.
- Steingrímur Steinþórsson: Steingríms saga II', bls. 57 – 60, Reykjavík 1980.
- Sunnlenskar byggðir VI, Búnaðarsamband Suðurlands 1985 (nokkrir höfundar, Bjarna víða getið).
- Þórarinn Helgason: Lárus á Klaustri, Reykjavík 1957 (Bjarni allvíða nefndur).
- Þórólfur Árnason: „Rafvæðing í Vestur-Skaftafellssýslu – Þáttur hugvitsmanna í héraði", Dynskógar 1983, bls. 37 – 116.
- Bjarni í Hólmi og hvítu kolin, Samvinnan, 3. Tölublað (01.09.1927), Blaðsíða 278