Bjarni Jónsson (vígslubiskup)
Bjarni Jónsson ( 21. október 1881 - 19. nóvember 1965) var prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík og vígslubiskup. Bjarni var í framboði til embættis forseta Íslands árið 1952.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Bjarni fæddist í Mýrarholti sem var býli við Bakkastíg í Vesturbæ Reykjavíkur[1] og voru foreldrar hans hjónin Jón Oddsson tómthúsmaður og Ólöf Hafliðadóttir. Eiginkona Bjarna var Áslaug Ágústsdóttir og eignuðust þau þrjú börn, Ágúst, Ólöfu og Önnu.
Menntun og störf
[breyta | breyta frumkóða]Bjarni lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1902 og lauk embættisprófi í guðfræði árið 1907 frá Kaupmannahafnarháskóla. Samhliða námi kenndi Bjarni við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann í Reykjavík. Haustið 1907 varð hann skólastjóri Barnaskólans á Ísafirði. Hann varð prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík árið 1910, var prófastur í Kjarlarnesprófastsdæmi 1932-1938 og dómprófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi frá 1945-1951. Hann varð vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi forna frá 1937 og til æviloka. Starfsferill Bjarna var langur og hann var starfandi prestur og vígslubiskup í rúmlega hálfa öld. Hann varð heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1941 og hlaut ýmsar orður og heiðursmerki m.a. stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu og hina dönsku Dannebrogsorðu. Bjarni var heiðursfélagi í fjölda félaga og árið 1961 varð hann heiðursborgari Reykjavíkurborgar en Bjarni þótti með þekktari borgurum Reykjavíkur og vakti athygli vegfarenda þegar hann gekk hempuklæddur milli Dómkirkjunnar og heimilis síns að Lækjargötu 12b.[2]
Árið 1967 kom bókin Séra Bjarni út, en hún hefur að geyma frásagnir nokkurra samferðamanna Bjarna.
Forsetaframboð
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1952 gafst íslenskum kjósendum í fyrsta sinn færi á því að kjósa sér forseta en fyrsti forseti Íslands, Sveinn Björnsson var þingkjörinn árið 1944 og endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1945 og 1949. Þrír frambjóðendur gáfu kost á sér Ásgeir Ásgeirsson, Bjarni Jónsson og Gísli Sveinsson forseti sameinaðs þings. Kosningarnar voru afar pólitískar og naut Bjarni stuðnings framsóknar- og sjálfstæðisfólks en vinstra fólk, einkum alþýðuflokksfólk studdi Ásgeir. Bjarni naut stuðnings Morgunblaðsins, málgagns Sjálfstæðisflokksins og á kjördag hvatti blaðið til þess í forsíðufrétt sinni að kjósendur myndu sameinast um Bjarna og sagði að „allir þjóðhollir Íslendingar kjósa séra Bjarna Jónsson.“ Niðurstaða kosninganna varð sú að Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti með 48,3% atkvæða en Bjarni hlaut 45,5,%. Þriðji frambjóðandinn Gísli Sveinsson hlaut 6,2% atkvæða.[3][4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Sveinbjörg Jónsdóttir, „Séra Bjarni Jónsson. Guðfræði hans og nýguðfræðin“, BA-ritgerð í guðfræði, 2013.
- ↑ Gardur.is, „Prestur og vígslubiskup Bjarni Jónsson“ (skoðað 12. ágúst 2019)
- ↑ Kristinn Haukur Guðnason, „Skrautleg saga forsetakosninga“ Kjarninn, 9. janúar 2016 (skoðað 12. ágúst 2019)
- ↑ „Íslendingar! Sameinumst um séra Bjarna Jónsson“, Morgunblaðið 29. júní 1952 (skoðað 12. ágúst 2019)