Fara í innihald

Bjarni Herjólfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarni Herjólfsson var íslenskur maður sem sagt er frá í Grænlendinga sögu og stendur þar að hann hafi fundið Vínland (eða Markland), það er að segja hann sá það tilsýndar ásamt hásetum sínum. Minnisvarði um hann mun innan tíðar rísa á Eyrarbakka, upp við bæinn Drepstokk.[1]

Bjarni sigldi frá Eyrum (þar sem síðar reis Eyrarbakki) og ætlaði að finna föður sinn á Grænlandi. Á leið sinni þangað koma hann og hásetar hans auga á land ófjöllótt og skógi vaxið. Vildu hásetar sækja vatn en Bjarni sigla áfram og finna land sem jökull væri á, það er að segja Grænland. Var það og gert.

Leifi heppna er í Grænlendinga sögu lýst sem sporgöngumanni hans, en hann fer þó þar á land. Það er ósamkvæmni milli sagna, því samkvæmt Eiríks sögu rauða finnur Leifur Vínland á leið frá Skotlandi til Grænlands.

Þannig segir frá fundi Bjarna í Grænlendinga sögu:

Það sama sumar kom Bjarni skipi sínu á Eyrar er faðir hans hafði brott siglt um vorið. Þau tíðindi þóttu Bjarna mikil og vildi eigi bera af skipi sínu. Þá spurðu hásetar hans hvað er hann bærist fyrir en hann svaraði að hann ætlaði að að halda siðvenju sinni og þiggja að föður sínum veturvist „og vil eg halda skipinu til Grænlands ef þér viljið mér fylgd veita“ Allir kváðust hans ráðum fylgja vilja. Þá mælti Bjarni: „Óviturleg mun þykja vor ferð þar sem engi vor hefir komið í Grænlandshaf.“ En þó halda þeir nú í haf þegar þeir voru búnir og sigldu þrjá daga þar til er landið var vatnað en þá tók af byrina og lagði á norrænur og þokur og vissu þeir eigi hvert að þeir fóru og skipti það mörgum dægrum. Eftir það sáu þeir sól og máttu þá deila áttir, vinda nú segl og sigla þetta dægur áður þeir sáu land og ræddu um með sér hvað landi þetta mun vera en Bjarni kveðst hyggja að það mundi eigi Grænland. Þeir spyrja hvort hann vill sigla að þessu landi eða eigi. „Það er mitt ráð að sigla í nánd við landið.“ Og svo gera þeir og sáu það brátt að landið var ófjöllótt og skógi vaxið og smár hæðir á landinu og létu landið á bakborða og létu skaut horfa á land. Síðan sigla þeir tvö dægur áður þeir sáu land annað. Þeir spyrja hvort Bjarni ætlaði það enn Grænland. Hann kvaðst eigi heldur ætla þetta Grænland en hið fyrra „því að jöklar eru mjög miklir sagðir á Grænlandi“ Þeir nálguðust brátt þetta land og sáu það vera slétt land og viði vaxið. Þá tók af byr fyrir þeim. Þá ræddu hásetar það að þeim þótti það ráð að taka það land en Bjarni vill það eigi. Þeir þóttust bæði þurfa við og vatn. „Að öngu eruð þér því óbirgir“ segir Bjarni en þó fékk hann af því nokkuð ámæli af hásetum sínum. Hann bað þá vinda segl og svo var gert og settu framstafn frá landi og sigla í haf útsynningsbyr þrjú dægur og sáu þá landið þriðja. En það land var hátt og fjöllótt og jökull á. Þeir spyrja þá ef Bjarni vildi að landi láta þar en hann kvaðst eigi það vilja „því að mér líst þetta land ógagnvænlegt.“ Nú lögðu þeir eigi segl sitt, halda með landinu fram og sáu að það var eyland, settu enn stafn við því landi og héldu í haf hinn sama byr. En veður óx í hönd og bað Bjarni þá svipta og eigi sigla meira en bæði dygði vel skipi þeirra og reiða, sigldu nú fjögur dægur. Þá sáu þeir land hið fjórða. Þá spurðu þeir Bjarna hvort hann ætlaði þetta vera Grænland eða eigi. Bjarni svarar: „Þetta er líkast því er mér er sagt frá Grænlandi og hér munum vér að landi halda.“
 
— Grænlendinga saga

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Drepstokkshóll“. south.is. VISIT SOUTH ICELAND. Sótt 8. mars 2020.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.