Fara í innihald

Björg Thorarensen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Björg Thorarensen
Fædd24. september 1966
Reykjavík
StörfHæstaréttardómari áður prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands

Björg Thorarensen (f. 1966) er íslenskur lögfræðingur. Hún var um árabil prófessor í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands en frá 23. nóvember 2020 er hún hæstaréttardómari við Hæstarétt Íslands.[1]

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Björg fæddist í Reykjavík 24. september 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985,[2] embætttisprófi í lögfræði (cand. jur) frá Lagadeild Háskóla Íslands 1991[3] og meistaraprófi í lögum (LL.M) frá Edinborgarháskóla árið 1993 í stjórnskipunarrétti og alþjóðlegum mannréttindum og stjórnskipulagi Evrópusambandsins.[2][4]

Að loknu lagaprófi var Björg starfsmaður nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins sem undirbjó gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og annarrar löggjafar á sviði réttarfars 1. júlí 1992 frá 1991 til 1992. Hún var í starfsnámi hjá Mannréttindanefnd Evrópuráðsins í Strasbourg haustið 1993. Hún starfaði sem lögfræðingur á lagaskrifstofu ráðuneytisins frá 1994-1996, skrifstofustjóri á löggæslu- og dómsmálaskrifstofu frá 1996 -2001 og skrifstofustjóri á lagaskrifstofu ráðuneytisins 2002. Björg fékk útgefið leyfisbréf til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1997. Þá var hún umboðsmaður (agent) ríkisstjórnar Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu frá 1999 – 2005 og 2009-2011.[2][4]

Frá árinu 1994 -2002 var Björg stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands í alþjóðlegum mannréttindareglum og stjórnskipunarrétti. Hún var prófessor við Lagadeild HÍ í stjórnskipunarrétti, alþjóðlegum mannréttindareglum, þjóðarétti og persónuverndarrétti frá 2002-2020 og frá 2007-2010 var hún forseti Lagadeildar.[2][4]

Kennsla og rannsóknir Bjargar eru einkum á sviði stjórnskipunarréttar, Mannréttindasáttmála Evrópu, þjóðaréttar og persónuverndarréttar og hefur hún gefið út fjölmargar greinar, bókakafla og bækur á innlendum og á alþjóðlegum vettvangi um þau efni auk álitsgerða, skýrslna og vinnu við lagafrumvörp. Viðamestu rannsóknir hennar tengjast íslensku stjórnarskránni og stjórnskipun Norðurlandanna.

Björg hefur haldið fyrirlestra um efni á rannsóknarsviðum sínum á fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum ráðstefnum og málþingum. Þá er hún virkur opinber álitsgjafi í stjórnskipunar- og mannréttindamálefnum. Hún var gestafræðimaður við lagadeild Háskólans í Kaupmannahöfn 2011 og 2014 og við Evrópustofnunina í Flórens (European University Institute) 2018.[2]

Ýmis störf og verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Björg hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan og utan háskólans. Hún var formaður stjórnar Persónuverndar frá 2011-2020[5] og var formaður starfshóps dómsmálaráðherra til að undirbúa innleiðingu Persónuverndarreglugerðar ESB í íslenskan rétt 2017 og 2018.[6] Þá má nefna stjórnarformennsku í Háskólaútgáfunni frá 2016-2020[7] og Hafréttarstofnun Íslands frá 2017-2020[2] og hún var stjórnarformaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands frá 2004-2013.[8] Hún hefur setið í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags frá 2019.[9] Hún var kosin af Alþingi í stjórnlaganefnd fyrir árin 2010 og 2011.[10] Skipuð af utanríkisráðherra 4. nóvember 2009 til að vera annar tveggja varaformanna Samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið [11] Þá var hún formaður ráðgjafarhóps ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni 2009[12][13] og skipuð af forsætisráðherra í sérfræðinganefnd í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni, 2005-2007.[14] Hún sat í nefnd Evrópuráðsins um persónuvernd (T-PD). Á árunum 1995 til 2010 var Björg fulltrúi Íslands í ýmsum nefndum á vegum Evrópuráðsins í Strasbourg, einkum á sviði mannréttinda þar á meðal Sérfræðinganefnd um þróun mannréttinda (DH-DEV) og Sérfræðinganefnd um málsmeðferðarreglur í mannréttindamálum (DH-PR) þar sem hún var formaður árin 2009 og 2010. Þá var hún fulltrúi Íslands í Samninganefnd Evrópuráðsins og Evrópusambandsins um aðild ESB að Mannréttindasáttmála Evrópu 2010 og 2011.[2]

Björg vann einnig við blaða- og fréttamennsku á NT og dagblaðinu Tímanum 1985 og 1986, Dagblaðinu-Vísi 1986 og 1987 og fréttastofu Ríkisútvarpsins 1988-1991.[2]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Björg var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands á nýársdag 2019 fyrir kennslu og rannsóknir á sviði lögfræði.[15]

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Bjargar eru Sigurlaug Bjarnadóttir framhaldsskólakennari og fyrrv. alþingismaður (f. 1926)[16] og Þorsteinn Thorarensen lögfræðingur og bókaútgefandi (1927-2006). Systkini hennar eru Ingunn, grunnskólakennari (f. 1955) og Björn, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður (f. 1962). Björg er gift Markúsi Sigurbjörnssyni fyrrv. hæstaréttardómara (f. 1954) og eiga þau þrjú börn.[17]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Visir.is, „Ása og Björg skipaðar dómarar við Hæstarétt“ (skoðað 22. nóvember 2020)
 2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 „Björg Thorarensen“. Sótt 6. júní 2019.
 3. Lögfræðingatal 1736-1992. Iðunn, Reykjavík 1993.
 4. 4,0 4,1 4,2 „Heimasíða Bjargar Thorarensen“. Sótt 6. júní 2019.
 5. Persónuvernd. (e.d.). Starfsfólk og stjórn Persónuverndar. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.personuvernd.is/personuvernd/starfsfolk-og-stjorn//
 6. Viðskiptablaðið. (2017, 21. nóvember). ESB reglur gilda þó ekki í lögum. Hafin er vinna við innleiðingu persónuverndarlöggjafar ESB og mun Björg Thorarensen semja frumvarpið. Viðskiptablaðið. Sótt 6. júní 2019 af: http://www.vb.is/frettir/esb-reglur-gilda-tho-ekki-i-logum/142986/?q=d%C3%B3msm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0herra
 7. Háskólaútgáfan. (2019). Um Háskólaútgáfuna. Sótt 6. júní 2019 af: http://haskolautgafan.hi.is/um Geymt 7 júní 2019 í Wayback Machine
 8. Háskóli Íslands. Mannréttindastofnun. (2015). Starfsemi fyrri ára. Sótt 6. júní 2019 af: https://mhi.hi.is/starfsemi_fyrri_ara Geymt 7 júní 2019 í Wayback Machine
 9. Hið íslenska bókmenntafélag. (2019). Kosning forseta og varaforseta. Sótt 6. júní 2019 af: https://hib.is/2016/03/16/gamma-gerist-bakhjarl/
 10. Alþingi. (2010). Tilkynningar. Stjórnlaganefnd valdi Guðrúnu Pétursdóttur formann. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/tilkynningar/nr/1366
 11. Utanríkisráðuneytið (2013). Skýrsla um samningaviðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu.
 12. Alþingi. (2008). Frumvarp til stjórnskipunarlaga. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/altext/136/s/0648.html
 13. Vísir. (2019). Frumvarp lagt fram fljótlega. visir.is. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.visir.is/g/2009425595012/frumvarp-lagt-fram-fljotlega
 14. Sérfræðinganefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. (2005). Skýringar við Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Forsætisráðuneytið. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/frettir/skyringar.pdf
 15. Forseti Íslands. Orðuhafaskrá. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.forseti.is/falkaordan/orduhafaskra/ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine
 16. Alþingi. (2015). Sigurlaug Bjarnadóttir. Sótt 6. júní 2019 af: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=528
 17. Samtíðarmenn. Ritstj. Pétur Ástvaldsson. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2003.

Rannsóknir og helstu ritverk[breyta | breyta frumkóða]