Fara í innihald

Bessastaðir (Fljótsdal)

Hnit: 65°03′16″N 14°55′26″V / 65.054414°N 14.923867°V / 65.054414; -14.923867
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bessastaðir
Bæta við mynd
LandÍsland
SveitarfélagFljótsdalshreppur
Map
Hnit65°03′16″N 14°55′26″V / 65.054414°N 14.923867°V / 65.054414; -14.923867
breyta upplýsingum

Bessastaðir í Fljótsdal eru landnámsjörð, kennd við Spak-Bersa Össurarson, sem víða er getið í fornsögum. Þar var snemma kirkja, en vægi hennar minnkaði þegar klaustur var reist á Skriðu, og lagðist kirkjan af um 1600. Frá 1913 hafa Bessastaðir verið bændaeign og ættaróðal.

Sunnan við Bessastaði kemur Bessastaðaá fram úr Bessastaðaárgili, sem er mikil náttúrusmíð, um 200 m djúpt. Þar eru þykk setlög frá síðtertíer og margir fossar, sá hæsti er Jónsfoss nálægt miðju gili. Bessastaðaá kemur úr Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði og bendir nafnið á vötnunum til að áin hafi heitið Gilsá í fornöld.

Á Bessastöðum var lengi þingstaður, þar sem háð voru héraðsþing fyrir Fljótsdal og nágrenni. Í túninu var Þingvöllur og forn tóft, sem er friðlýst. Neðst í gili Bessastaðaár er Drekkingarhylur, stundum kallaður Sunnefuhylur, og Gálgaklettur þar skammt frá.

Frá Bessastöðum lá alfaravegur (hestagata) yfir Fljótsdalsheiði norður til Jökuldals og Hrafnkelsdals. Síðar var ruddur þar jeppavegur og loks vegur með bundnu slitlagi, í sambandi við Kárahnjúkavirkjun.