Bessastaðaá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Bessastaðaá
Uppspretta Gilsárvötn

Bessastaðaá er bergvatnsá í Fljótsdal. Hún kemur úr Gilsárvötnum á Fljótsdalsheiði, sem eru í um 625 m hæð, og fellur um mikið gil ofan í dalinn og rennur í Jökulsá í Fljótsdal nálægt botni Lagarfljóts. Áin dregur nafn af Bessastöðum í Fljótsdal, sem eru utan við ána. Líklegt er að Bessastaðaá hafi heitið Gilsá í fornöld, en nafninu verið breytt af því að önnur Gilsá er í næsta nágrenni.

Á árunum 1975–1979 voru uppi áætlanir um að virkja Bessastaðaá, með miðlunarlóni í Gilsárvötnum og inntakslóni við Garðavatn (Hólmalón). Einnig átti að veita vatni til virkjunarinnar úr Hölkná og Þórisstaðakvísl. Gert var ráð fyrir jarðgöngum til stöðvarhúss skammt innan við Valþjófsstað, á svipuðum stað og Fljótsdalsstöð er nú. Síðar var hætt við að reisa Bessastaðaárvirkjun, en stefnt í staðinn að því að virkja rennsli jökulánna í Kárahnjúkavirkjun. Sú virkjun nýtir hins vegar ekki vatnið úr Bessastaðaá. Afl Bessastaðaárvirkjunar var áætlað á bilinu 32–64 MW.