Fara í innihald

Bandaríska flokkakerfið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bandaríska flokkakerfið er tveggja flokka kerfi, þar sem Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn bera höfuð og herðar yfir aðra flokka í kosningum síðan á 19 öld. Þó frambjóðendur annarra flokka vinni stöku sinnum kosningar þá hafa slíkir flokkar yfirleitt verið skammlífir og haft takmarkaða útbreiðslu. Frambjóðendur sem starfa utan flokka ná sömu leiðis stundum kjöri, en starfa þá yfirleitt alltaf með öðrum hvorum stóru flokkanna sem skipta með sér völdum á öllum stigum stjórnkerfisins.[1]

Bandaríska flokkakerfið hefur verið tveggja-flokka kerfið frá 1797. Nöfn flokkanna, áherslur þeirra, og þau kjósendabandalög sem standa þeim að baki, hafa hins vegar gengið í gegnum mikilvægar umpólanir sem eiga sér stað í umpólandi kosninga (e. realigning elections).Fræðimenn eru ekki sammála um fjölda umpólana síðan á nítjándu öld. Yfirleitt er þó talað um þrjú ólík flokkakerfi. Núverandi kerfi ásamt Repúblíkanaflokknum og Demókrataflokknum kom fram í kosningunum 1854, en samsetning flokkanna hefur gengið í gegnum nokkrar grundvallarbreytingar síðan þá.

Saga bandaríska flokkakerfisins

[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríska flokkakerfið hefur gengið í gegnum nokkrar umbreytingar síðan það kom fram í kjölfar Bandarísku Byltingarinnar og Stjórnlagaþingsins 1789. Meðan George Washington var forseti ríkti þverpólítísk sátt í Bandaríkjaþingi og stjórnmálamenn skiptu sér ekki í fylkingar. Margir höfunda bandarísku stjórnarskrárinnar töldu stjórnmálaflokka hættulega lýðræðinu og sáu fyrir sér að stjórnmálamenn myndu bjóða sig fram í eigin nafni og aðeins starfa eftir eigin samvisku. Washington varaði við flokkamyndun í kveðjuávarpi sínu til þjóðarinnar 1796.

Eftirmenn Washington og leiðtogar meðal þingmanna skiptu sér engu að síður í flokka eftir að Washington hafði látið af embætti.

Fyrsta flokkakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta flokkakerfið (e. The First Party System) kom fram 1792 og var við lýði til ársins 1824.[2] Annars vegar var Federalistaflokkurinn (e. Federalist Party), stofnaður af m.a. Alexander Hamilton og hins vegar Jeffersonian Democratic-Republican flokkurinn, sem var stofnaður af Thomas Jefferson og James Madison. Sá flokkur var yfirleitt kallaður Jeffersonian-Repúblican, eða bara Repúblíkanaflokkurinn. Federalistaflokkurinn, talaði fyrir sterku ríkisvaldi, sérstaklega sterku alríki, og höfðaði til stórkaupmanna og iðnrekenda í stórborgum á austurströnd Bandaríkjanna. Repúblikanaflokkurinn talaði máli bænda og landeigenda, þar á meðal stórlandeigenda í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem þrælahald var undirstaða stórbúskapar.[3]

John Adams, frambjóðandi Federalista vann fyrstu forsetakosningarnar eftir að Washington lét af embætti, árið 1797. Adams sat aðeins eitt kjörtímabil og enginn annar frambjóðandi flokksins vann forsetakosningar. Repúblíkanaflokkurinn hafði forystu í stjórnmálum Bandaríkjanna á fyrstu tveimur áratugum 19. aldar. Þegar komið var fram á annan áratug aldarinnar var flokkurinn orðinn svo að segja allsráðandi. Árin 1816-1824 voru kölluð The Era of Good Feelings, en þá voru flokkadeilur næsta fátíðar og pólítísk sátt ríkti, sérstaklega í Bandaríkjaþingi.

Innanflokksátök í Repúblíkanaflokknum á þriðja áratug nítjándu aldar urðu til þess að hann liðaðist í sundur. Í forsetakosningunum 1820 voru tveir ólíkir fulltrúar flokksins í kjöri, og í kosningunum 1824 voru alls fjórir framjbóðendur sem kenndu sig við flokkinn í kjöri. Stuðningsmenn Andrew Jackson höfðu náð undirtökum í flokknum árið 1828. Árið 1832 var farið að kalla flokkin Demókrataflokkinn. Ólíkar fylkingar andstæðinga Jackson klufu sig úr flokknum og stofnuðu Whig flokkinn, (e. the Whig Party).

Annað flokkakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Annað flokkakerfið (e. The Second Party System) var við lýði frá 18281854. Tímabilið einkenndist vaxandi kosningaáhuga og pólítískri virkni, vexti fjöldasamtaka.[4] Tveir flokkar tókust nú á. Annars vegar Demókrataflokkurinn, undir forystu Andrew Jackson sem aðhylltist ódýra peninga og fríverslun sem voru hagsmunamál bænda sem reiddu sig á útflutning, og hins vegar Whig flokkurinn (e. Whig Party) undir forystu Henry Clay, sem talaði máli iðnrekenda sem vildu verndartolla, sterkt alríki og gullfótarkerfið.[5]

Whig flokkurinn vann forsetakosningarnar 1840 og 1848. Árið 1850 klofnaði Demókrataflokkurinn vegna deilna innan flokksins um afstöðu til þrælahalds og Whig flokkurinn liðaðist sömu leiðis í sundur vegna deilna um afstöðu til þrælahalds.

Þriðja flokkakerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja flokkakerfið (e. The Third Party System) kom fram 1854. Sjötti áratugurinn einkenndist af vaxandi þjóðernishyggju, nútímavæðingu og vaxandi spennu milli stuðningsmanna og andstæðinga þrælahalds. Repúblikanaflokkurinn var andsnúinn þrælahaldi og beitti sér fyrir því að ríkisvaldið styddi við iðnvæðingu með járnbrautarlagningu og stuðningi við bankastarfsemi. Flokkurinn fylgdi verndarstefnu og hækkaði tolla auk þess að auka félagsleg útgjöld.[6] Demókrataflokkurinn talaði máli bænda, sérstaklega í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Í skjóli hernáms Suðurríkjanna í kjölfar Borgarastríðsins sem geisaði á árunum 1861-1865, vann Repúblíkanaflokkurinn forsetakosningarnar 1868 og 1872, en í kosningunum 18761892 var mjög mjótt á munum. Demókrataflokkurinn vann þó eininguis forsetakosningarnar 1884 og 1892. Flokkurinn hafði hins vegar meirihluta í fulltúradeild og öldungadeild Bandaríkjaþings frá 18791881 og frá 1893 - 1895.

Meginstyrkur Repúblíkanaflokksins var í Norður- og Vesturríkjum Bandaríkjanna, að New York, Indiana, New Jersey og Connecticut undanskildum. Eftir 1876 náðu Demókratar einokunarstöðu í Suðurríkjunum. Sú einokunarstaða var grundvöllur þess sem kallað var "Gegnheila Suðrið", (e. Solid South), sterkasta kjósendablokk flokksins sem varð grundvöllur meirihluta flokksins í Bandaríkjaþingi stóran hluta allrar 20 aldar.[7]

  1. Helgason, Árni. (2.11.2009). Hvers vegna eru bara tveir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum? Sótt 26. nóvember.
  2. Chambers, William Nisbet, ed. The First Party System (1972)
  3. David Hackett Fischer, The Revolution of American Conservatism: The Federalist Party in the Era of Jeffersonian Democracy (1965) bls. 116
  4. Wilentz, The Rise of American Democracy: Jefferson to Lincoln (2006)
  5. Holt, Political Parties and American Political Development: From the Age of Jackson to the Age of Lincoln (1992)
  6. James E. Campbell, "Party Systems and Realignments in the United States, 1868–2004," Social Science History Fall 2006, Vol. 30, bls. 359–86
  7. Foner, Eric. Reconstruction: America's Unfinished Revolution, 1863–1877 (1988)
  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.