Baldur Georgs Takács
Baldur Georgs Takács (22. október 1927 – 26. ágúst 1994) eða Baldur Georgs var töframaður og búktalari sem var vinsæll skemmtikraftur á Íslandi upp úr miðri 20. öld. Hann kom oftast fram með brúðunni Konna og voru þeir þekktir sem „Baldur og Konni“.
Baldur var sonur hjónanna Ágústu Thorarensen, píanó- og danskennara, og ungverska tónlistarmannsins Georgs Takács, en ólst upp hjá afa sínum og ömmu. Hann lagði stund á töfrabrögð og sjónhverfingar frá unga aldri og kom í fyrsta sinn fram á opinberri skemmtun 16 ára að aldri og náði þegar miklum vinsældum. Um 1945 kom brúðan Konni til sögunnar og fór Baldur þá að leggja stund á búktal jafnhliða töfrabrögðunum, fyrstur Íslendinga.
Þeir Baldur og Konni skemmtu í Tívolíinu í Vatnsmýri á árunum 1947-1960, fóru einnig víða um land og skemmtu og komu fram í Tívolí í Kaupmannahöfn og á Dyrehavsbakken. Einnig gaf Baldur út tvær bækur og fimm hljómplötur byggðar á skemmtiatriðum þeirra. Baldur og Konni komu líka fram í sjónvarpi á fyrstu árum þess.
Baldur vann ætíð fulla vinnu jafnhliða því sem hann skemmti fólki og rúmlega þrítugur hóf hann nám utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 33 ára. Eftir það starfaði hann einkum við kennslu en stundaði einnig þýðingar.
Baldur hætti að mestu að koma fram upp úr 1970 en sneri þó stöku sinnum aftur á svið eða í sjónvarp og brá meðal annars fyrir í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Hann lést árið 1994 en Konni er varðveittur á Þjóðminjasafninu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Konni er kominn á Þjóðminjasafnið. Dagblaðið Vísir - DV, 16. mars 1996“.
- „Ég er aldrei einn með Konna. Dagblaðið Vísir - DV, 24. mars 1984“.
- „Baldur Georgs Takács. Minning. Morgunblaðið, 8. september 1994“.