Fara í innihald

Bahá'í trúin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bahá'i)
Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar í Haifa í Ísrael
Tilbeiðsluhús bahá'í trúarinnar í Nýju Delí á Indlandi, oft kallað lótusmusterið.

Bahá'í trúin (borið fram „bahæj“) eru ung trúarbrögð stofnuð á 19. öld í Persíu (nú Íran) af Mírzá Husayn 'Alí (1817-1892) sem síðar fékk titilinn Bahá'u'lláh (Dýrð Guðs). Fylgjendur bahá'í trúarinnar eru kallaðir bahá'íar. Þeir eru um sex milljónir í yfir tvö hundruð löndum. Bahá’í trúin er, frá landfræðilegu sjónarmiði, talin næstútbreiddasta trú heims á eftir kristni.

Bahá'í ritin tala um það að öll helstu trúabrögð heims séu frá Guði komin og tala gjarnan um „stighækkandi opinberun“. Þetta hugtak er oft útskýrt með skólagöngu. Skólinn er aðeins einn en kennararnir margir. Mannkynið þroskast stig af stigi og þarf því alltaf á nýjum kennara að halda til að leiðbeina því á andlegri og félagslegri þroskagöngu þess í samræmi við þarfir þess og aðstæður hverju sinni. Þeir sem Búddha talaði til á sínum tíma þurftu á öðrum boðskap að halda en þeir sem Múhameð talaði til mörg hundruð árum seinna. Nokkrir af þessum miklu fræðurum og andlegum leiðtogum mannkynsins voru Abraham, Krishna, Móses, Saraþústra, Búddha, Kristur og Múhammeð. Bahá’íar líta á Bahá’u’lláh sem nýjasta fræðarann í þessari röð og telja hann kominn með boðskap fyrir mannkynið á tímum einingar og gífurlegra breytinga á högum þess. Bahá’í ritin segja að Guð muni halda áfram að senda mönnunum boðbera sína meðan mannkynið lifir á jörðinni.

Meginkenningar bahá'í trúarinnar eru að Guð sé einn, trúabrögðin séu af einni og sömu rót og mannkynið sé eitt. Iðkun bahá'í trúarinnar fer einkum fram á heimilum trúaðra eða öðrum samkomustöðum sem samfélög bahá'ía nota. Átta tilbeiðsluhús bahá'ía hafa verið reist, eitt í hverri heimsálfu, og tvö svæðistilbeiðsluhús hafa verið reist og sex þjóðar- og svæðistilbeiðsluhús eru í bígerð. Þau hafa öll níu dyr vegna þess að talan 9 er heilög tala í bahá'í trúnni. Orðið "Bahá" hefur tölugildið 9 í arabísku, og talan táknar einnig uppfyllingu og fullkomnun (vegna þess að hún er hæsti tölustafur tugakerfisins). Heimsmiðstöð bahá'í trúarinnar er í Haifa í Ísrael og þar er aðsetur æðstu stofnunar trúarinnar (Allsherjarhús réttvísinnar) sem og helgistaðir hennar og þangað fara bahá'íar í pílagrímsferðir. Þó búa engir bahá'íar í Ísrael í dag nema tímabundið í tengslum við Heimsmiðstöðina. Heimsmiðstöðin er þar staðsett vegna þess að upphafsmenn trúarinnar hröktust frá Íran og settust að í Haifa.

Bahá'í trúin hefur sitt eigið dagatal, með ártal sem miðast við árið 1844. Nýtt ár gengur í garð við jafndægur á vori. Hvert ár hefur 19 mánuði og hver mánuður 19 daga, með 4-5 aukadaga sem fylla upp í árið. Þess má geta að í hinu for-kristna dagatali ásatrúarmanna á Íslandi voru líka fáeinir utanmánaðardagar sem rúnnuðu af hlaupár og gerðu alla mánuðina jafn langa og voru kallaðir vetrarnætur.

Rit bahá'í trúarinnar eru viðamikil og skorðast ekki við eina bók heldur margar bókahillur og hefur innan við helmingur verið þýddur yfir á ensku og sum helgustu rit trúarinnar hafa einungis tiltölulega nýlega verið þýdd yfir á ensku.

Á Norðurlöndunum hefur einungis Grænland hlutfallslega fleiri átrúendur en á Íslandi.[heimild vantar]. Þann 1. desember 2022 voru 324 meðlimir í Bahá'í samfélaginu á Íslandi. [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Skráning í trú og lífsskoðunarfélög...Þjóðskrá, sótt 24. des 2022